25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

53. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umræðu, er ekki alveg ókunnugt hv. þm., a.m.k. ekki þeim sem hér hafa setið í nokkur ár. Þannig er mál með vexti, að á haustþin 1976 flutti ég till. til þál. um þetta mál og þá einn. Á næsta þingi voru flm. þessa máls tveir, Jóhann Hafstein, þáv. hv. þm. hafði bæst við, og síðan var það á árinu 1978 að meðflm. að þessari till. urðu þeir hv. þm. Jónas Árnason og Sighvatur Björgvinsson.

Þetta mál var til umræðu vorið 1978 og þá náðist samkomulag meiri hl. allshn. um afgreiðslu málsins. Það fékkst hins vegar ekki tekið til atkvæða hér í hv. Sþ. og það hefur verið ótrúleg fyrirstaða fyrir því að þetta mál fengi þinglega meðferð. En fyrir rúmlega einu og hálfu ári gerðist það, að Alþingi samþykkti ályktun um málið. Það var þál. Alþingis 22. maí 1979. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins, sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt.“

Hér eru sem sagt skýlaus fyrirmæli Alþingis til hæstv. ríkisstj. um að koma því svo fyrir að þeir, sem þessi lán eiga að fá, fái þau í raun og veru, en þau staðnæmist ekki einhvers staðar annars staðar.

Þrátt fyrir þennan langa tíma sem liðinn er hefur þessu máli ekki verið komið í höfn. Það má kannske segja að eigi sé sopið þótt í ausuna sé komið, en ég efast ekki um að núv. hæstv. viðskrh. hafi gert ráðstafanir til þess að nú, þegar hin miklu afurðalán verða veitt einmitt þessa dagana, verði séð til þess að vilji Alþingis nái fram að ganga, enda búum við í þingræðisríki og ráðherrar eru skyldir til þess að framfylgja vilja Alþingis ef þeir vilja sitja í hinum virðulegu stólum.

Bankarnir höfðu þetta mál nokkuð á hornum sér á tímabili, töldu að erfitt væri að koma því fyrir. Það gerðist raunar líka í sambandi við sjávarútveginn, að bankarnir færðust undan að framkvæma afurðatánagreiðslurnar þannig að hráefnisverð væri greitt refjalaust til þeirra sem fiskinn leggja inn. Er það þó ekki samjafnandi, vegna þess að fiskvinnslustöðvar sjávarútvegsins kaupa fiskinn og eiga hann sjálfar, en vinnslustöðvar landbúnaðarins eru með vöruna í umboðssölu og því heldur eiga auðvitað eigendur vörunnar að fá lánin sem þeim eru ætluð, en þau ekki að staðnæmast einhvers staðar annars staðar. En árið 1977, þegar hv. þm. Matthías Bjarnason var sjútvrh. gaf ríkisstj. svo hljóðandi yfirlýsingu, með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir því, að viðskiptabankar sjávarútvegsins taki að sér að annast greiðslu hráefnisandvirðis til fiskseljanda af nettóandvirði framleiðslulána. Greiðsla fari fram hverju sinni samkv. skrá sem fylgir birgða- og framleiðsluskrá fiskkaupanda. Hafi hluti af andvirði hráefnis verið greiddur fyrir fram af fiskseljanda eða fiskseljandi skuldbundið sig til að greiða skuld til kaupanda, skal draga þá fjárhæð frá samkv. upplýsingum fiskkaupanda.“

Síðan staðfestir Seðlabanki með bréfi á þessu sama ári, 1977, að viðskiptabönkum sé skylt að framfylgja þessari ályktun. Þar segir orðrétt:

„Í framhaldi af viðræðum milli ríkisstj., Seðlabankans og Landsbankans og Útvegsbankans um framkvæmd á þessu atriði (þ.e. að greiða hráefnisverð til þeirra sem það áttu), þá hefur verið ákveðið að viðskiptabankarnir greiði af afurðaláni keypt hráefni, sem farið hefur til vinnslu viðkomandi afurða, og mun Seðlabankinn framvegis setja eftirfarandi skilyrði fyrir endurkaupum lána út á sjávarafurðir. Fyrir liggi yfirlýsing fiskvinnslufyrirtækis þess sem lánið hefur fengið, þar sem eftirfarandi komi fram:

1. Hversu mikill hluti hráefnisverðmætis þess, er til vinnslu viðkomandi afurða gekk, hafi verið greiddur þegar af fyrirtækinu eða samið um greiðslufrest á.

2. Fyrirmæli til viðskiptabanka um að greiða það sem á kann að vanta af viðkomandi afurðaláni.“

Þetta er síðan framkvæmt þannig í sjávarútvegi, er mér tjáð, að seljendur hráefnisins fái greiðslu ekki síðar en innan hálfs mánaðar frá því að fiskvinnslufyrirtækin fá peningana í hendur, en frystihúsin og aðrir fiskvinnsluaðilar fá þá alls ekki í hendur nema þeir skuldbindi sig til að koma peningunum til eigenda hráefnisins, þeim hluta sem þangað á að fara. Þetta hefur ekki náðst fram í landbúnaðinum enn þá, en ég þykist þess hins vegar viss, eins og ég sagði áðan, að núv. hæstv. viðskrh. muni upplýsa okkur um að nú hafi verið settar reglur um hvernig þessum málum verður fyrir komið nú næstu daga, þegar gífurlegar fjárhæðir, sem bændur eiga, fara út úr Seðlabankanum og til viðskiptabankanna, og með hvaða ráðum hann tryggi að bændur fái þessa peninga, en ekki einhverjir aðrir.