25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

53. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm., Eyjólfur Konráð Jónsson hefur gert grein fyrir fsp. til mín á þskj. 57 fyrsti liður fsp. er þessi: „Hverjar eru þær reglur, sem settar hafa verið um greiðslur rekstrar- og afurðalána beint til bænda í samræmi við fyrri mgr. þál. frá 22. maí 1979, sem er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins, sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt.“

Landbrn. skrifaði 17. júlí 1979 bréf til Búnaðarbanka Íslands, Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands vegna ályktunar Alþingis um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt. Svör Búnaðarbankans og Landsbankans bárust í byrjun okt. 1979 og Seðlabankans í jan. 1980. Skal ég nú rekja nokkuð svör viðskiptabankanna.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að gera greinarmun á afurðalánum annars vegar og rekstrarlánum vegna framleiðslu sauðfjárafurða hins vegar. Afurðalán eru veitt gegn veði í afurðunum og er vandséð hvaða tryggingar aðrar gætu komið í þeirra stað. En hér er um sjálfsvörsluveð að ræða og verður lántakandi því að vera sá sem hefur afurðirnar í vörslu sinni. Af þessum sökum getur hver einstakur bóndi ekki verið lántakandi afurðalánanna. Þar með er þó ekki sagt að andvirði lánanna geti ekki runnið beint til bænda ef um það kæmu fyrirmæli frá lántakanda. Þegar afurðalánin eru veitt ber að greiða upp þau rekstrarlán sem áður hafa verið veitt.

Samkv, eðli málsins er óhjákvæmilegt að tengja þetta saman, en því, sem umfram það er, má að sjálfsögðu ráðstafa beint inn á reikning hvers bónda hjá banka, sparisjóði eða öðrum, enda hefði þá lántakandi í tæka tíð lagt inn hjá bankanum skrá þar að lútandi.

Hvað rekstrarlánin varðar koma tvær leiðir til athugunar. Sú fyrri er að hverjum bónda sé gefinn kostur á að vera lántakandi. Hver bóndi mundi þá snúa sér til þeirrar lánastofnunar, sem hann hefur viðskipti við, og yrði þá að sjálfsögðu að uppfylla öll viðskiptaleg skilyrði banka og sparisjóða, svo sem um tryggingar. Þessi leið hefur svo marga annmarka, að hún getur tæplega talist fær. Nefna má að hún mundi hafa í för með sér mikla vinnu og kostnað fyrir bændur og lánastofnanir. Þá má einnig gera ráð fyrir því, að til þess að tryggja greiðslu rekstrarlánanna af afurðalánum haustsins mundu bankarnir telja nauðsynlegt að krefjast ábyrgðar viðkomandi sláturleyfishafa á rekstrarlánunum.

Vegna þess samhengis, sem er milli rekstrar- og afurðalána, verður að telja æskilegast að lántakandi sé í báðum tilfellum sá sami, og er þá komið að síðari leið sem bankarnir mæla með, að sláturleyfishafar eða umboðsmenn þeirra verði áfram lántakendur líkt og verið hefur, en andvirði lánanna mætti ráðstafa að fyrirmælum lántakenda á þann hátt sem áður er lýst um afurðalán. Með því móti telja fleiri að tryggja megi að tilgangi þál. verði náð, þ.e. að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt.

20. mars 1980 fót landbrh. nefnd, sem var starfandi til að gera tillögur um breytingar á rekstrar- og afurðalánum til landbúnaðarins, að gera tillögur til rn. um tilhögun afgreiðslu rekstrar- og afurðalána landbúnaðarins sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt. Í þessari nefnd eiga sæti fulltrúar m.a. frá Stéttarsambandi bænda, sláturleyfishöfum, Seðlabanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Formaður nefndarinnar er Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrv. alþm. Nefndin hefur ekki skilað tillögum.

Annar liður fsp. er á þessa leið: „Hvernig fyrirhuga bankarnir að haga greiðslu afurðalánanna nú á næstunni?“

Búnaðarbankinn og Landsbankinn gera ráð fyrir að haga greiðslu afurðalána landbúnaðarins í ár á sama hátt og undanfarin ár. Afurðalánin eru tengd greiðslu rekstrarlána sem veitt voru fyrr á árinu. Þau voru veitt sláturleyfishöfum svo sem verið hefur. Það, sem umfram er greiðslu rekstrarlána, verður greitt lántakendum, nema beiðni hafi borist frá þeim í tæka tíð um aðra ráðstöfun andvirðisins.

Þriðji liður fsp. er þessi: „Hafa einhverjir erfiðleikar verið samfara framkvæmd þeirri, sem Alþingi mælti fyrir um?“

Í því efni vísast til svars við 1. lið fsp. Eins og fram kom þar vinnur sérstök nefnd að athugun þessara mála. Ég hafði samband við formann nefndarinnar, Vilhjálm Hjálmarsson fyrrum ráðh. Hann skýrði mér frá því, að nefndin hefði hafið störf um þessi mál á s.l. vori en nefndarstörf legið niðri í sumar. Síðan hafi nefndin hafið störf á nýjan leik og muni skila áliti við fyrstu hentugleika.