25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

53. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sem fulltrúi Alþfl. sæti í þeirri nefnd sem fjallað hefur um afurða- og rekstrarlánin, þá tel ég rétt að það komi hér fram, að í umræðum í nefndinni hefur mál þetta verið athugað mjög gaumgæfilega. Staðreyndin er sú, að tæknilegir gallar á framgangi þess eru svo miklir, að það verður ekki hlaupið að því verki að beinar greiðslur til bænda komi þegar í stað. Hins vegar er sú leið fær, sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, og hún hefur verið rædd. Á henni eru ekki umtalsverðir gallar. Málið er nú á lokastigi í þessari nefnd og hún mun væntanlega skila af sér áliti á morgun.