25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

351. mál, greiðsla útflutningsbóta og niðurgreiðslna til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Þessi fsp. er auðvitað náskyld þeirri sem rædd var hér rétt áðan, og ég treysti því svo sannarlega að greiðari og ánægjulegri svör fáist frá hæstv. landbrh. heldur en fengust frá hæstv. viðskrh., en við fáum að heyra þau hér á eftir.

Það er spurt sérstaklega að því, hvað liði athugun eða hvort frekari athuganir hafi farið fram á vegum Stéttarsambands bænda en þær sem gerðar voru á fyrri hluta árs og getið er um í bréfi sem dags. er 6. apríl 1979 og undirritað af Árna Jónassyni. Ég leyfi mér, herra forseti, að lesa upphaf þessa bréfs, því að það kann að varða mjög miklu að menn íhugi nú, þegar verið er að innleiða í íslenskan landbúnað nokkurs konar lénsskipulag með hinu illræmda kvótakerfi, hvort ekki sé hægt að leysa offramleiðsluvandamálið með miklu einfaldari hætti, á þann veg sem Stéttarsamband bænda vann mikið að athugunum á síðari hluta vetrar 1979. Bréfið er stílað til mín og upphaf þess er svona;

„Í framhaldi af viðræðum okkar Gunnars Guðbjartssonar í bréfum 12. og 16. febr. og viðtali okkar 22. febr. hef ég sett upp dæmi um að útflutningsbætur og niðurgreiðslur væru notaðar til greiðslu á frumstigi framleiðslunnar, þ.e. greiddar beint til bænda, með þeim takmörkunum sem þú nefndir í tillögu þinni og sem kemur enn fremur fram í bréfi þínu 16. febr. 1979.

Ég miða þessar greiðslur við einingar, sem ég kalla ærgildisafurð, þ.e. afurðir af einu ærgildi eins og þau hafa verið reiknuð við verðlagningu landbúnaðarafurða frá því að Sexmannanefnd hóf þá verðlagningu. Í einni ærgildisafurð eru 16.6 kg af dilkakjöti, tilsvarandi gæru, slátri og ull af einni kind, 155 lítrar af mjólk eða 15 kg af nautgripakjöti. Tölur þessar byggjast á landsmeðaltölum samkv. ásetningsskýrslum og innlögðum afurðum. Miðað er við verð eins og það var í des. 1978.“

Síðan eru nefnd hér allmörg dæmi um það, hvernig hugsanlegt væri að haga beinum greiðslum til bænda með þeim hætti, að jafnframt yrði ráðið við hugsanlega offramleiðstu. Fyrsta dæmið og það sem mesta athygli hefur vakið er það að greiða 25% af grundvallarverði beint til bænda, t.d. með mánaðarlegum greiðslum, en síðan, þegar varan væri lögð inn að haustlagi, ef við tökum sauðfjárafurðir, þá yrði eingöngu greitt út 75% grundvallarverðsins, en hver og einn gæti framleitt eins og honum sýndist. Það kæmi þarna á sjálfkrafa takmörkun. Þeir, sem gætu framleitt fyrir 75% grundvallarverðsins, mættu það, enda væri þá fjárhagslega rétt að þeir gerðu það, en þá væri engin þörf á neinu kvótakerfi með þeim hætti sem nú hefur verið upp tekið.

Ég vil sérstaklega geta þess, að Búnaðarþing fjallaði um þetta mál vorið 1979, og í skýrslu Búnaðarþings segir, með leyfi forseta:

„Mál nr. 6, tillaga Eyjólfs K. Jónssonar um að hluti niðurgreiðslna og útflutningsbóta verði greiddur beint til bænda. Málið afgreitt með eftirfarandi ályktun sem samþykkt var með 24 shlj. atkv.:

Búnaðarþing telur að enn liggi ekki fyrir nægar upplýsingar til þess að unnt sé að taka efnislega afstöðu til þeirra hugmynda sem í tillögunni felast, en óskar eftir því við stjórn Stéttarsambands bænda, að hún láti fara fram frekari könnun á málinu.“

Þess vegna spyr ég að því, hvort þessi frekari könnun hafi farið fram og hvað hún hafi leitt í ljós. Búnaðarþing hefur sem sagt ályktað mjög jákvætt í þessu efni, þó að einhvers staðar hafi verið fyrirstaða, sem maður veit ekki nákvæmlega hvar er að finna, og rennir þó kannske ýmsa grun í það.

Í 3. lið fsp. er einmitt að því vikið, hvort ekki væri hægt að afnema núverandi kvótakerfi með því að fara inn á einhverjar þær leiðir, sem Stéttarsamband bænda hefur unnið að athugun á, eins og ég greindi frá og las hér upp. Hérna er um geysimiklar fjárhæðir að ræða. Ég hef ekki allar nýjustu tölur um útflutningsbætur og niðurgreiðslur og þess vegna er 4. liðurinn einmitt um það, hve miklu þessar fjárhæðir nemi, en þegar þessi athugun var gerð síðari hluta vetrar 1979 var miðað við að helmingur útflutningsbóta og niðurgreiðslna yrði greiddur beint til bændanna, en hinn helmingurinn yrði áfram til verðjöfnunar, þannig að ekki var skrefið stigið út í þessum athugunum, langt frá því, heldur reynt að fikra sig áfram til þess réttlætis, að bændur eins og allir aðrir fengju þá fjármuni sem þeir eiga, sín vinnulaun greidd í peningum refjalaust. Eins og menn kannske vita þurfti með löggjöf árið 1930, lögum nr. 28, að skylda atvinnurekendur til að greiða verkkaup sjómanna og verkamanna í peningum. Þá var bannað innskriftarkerfi til þeirra atvinnustétta. En það hefur viðgengist til þessa dags í landbúnaðinum, illu heilli, og það er einn liðurinn í erfiðleikum landbúnaðarins.

Ég sagði hér áðan og stend við það, að kannske eru mestu erfiðleikar landbúnaðarins þeir, að bændur fái ekki sína fjármuni í hendur þegar þeir eiga að fá þá, heldur eru þeir í vörslu annarra.