25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

351. mál, greiðsla útflutningsbóta og niðurgreiðslna til bænda

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að leggja örfá orð í belg um þá fsp. sem hér er til umr., vegna þess að ég tel að hún sé það mikillar athygli verð, að við eigum að ræða hana og ræða hana í alvöru.

Ég fylgdist vel með því, þegar Stéttarsambandið gerði þá einu könnun sem gerð hefur verið á því, hvernig það mundi koma út að breyta greiðslu útflutningsbóta og niðurgreiðslna í það horf sem gert var ráð fyrir með þessari tillögu Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Og ég held að ég muni það rétt, að þegar athugað var hvernig sú aðferð kæmi út úr útsöluverði búvaranna, þá hafi komið í ljós að með því að hagnýta helming niðurgreiðslnanna í þessu skyni yrði örlítil hækkun á útsöluverði búvaranna, þannig að hann hefði þurft sennilega að hreyfa hlutfallstölur eitthvað meira til o.fl. Ég tel þess vegna — af því að athugunin stóð mjög stutt yfir — afar nauðsynlegt að halda áfram með þessa könnun.

Það er engin fjarstæða að láta sér detta í hug að þessi aðferð gæti leyst af hólmi það kvótafyrirkomulag sem nú er notað og ég hef sagt um áður í þessum ræðustól að væri hið erfiðasta í framkvæmd og mjög erfitt að hagnýta það þannig að það komi að fullum notum. Þess vegna tel ég mikla nauðsyn á að athugaðar séu allar þær hugmyndir sem fram koma, allt sem mönnum dettur í hug að geti orðið til þess að leysa af hólmi þá aðferð sem notuð hefur verið við framleiðslustjórnun. Ég vil þess vegna taka undir þá áskorun, sem hv. fyrirspyrjandi beindi hér til hæstv. landbrh., að hann hlutist til um að þetta verði athugað til hlítar, ekki einungis hjá Stéttarsambandi bænda, heldur einnig á vegum ráðuneytisins.