25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

351. mál, greiðsla útflutningsbóta og niðurgreiðslna til bænda

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir að staðfesta það sem ég sagði í ræðu minni áðan um þær niðurstöður sem fyrir lágu eftir athugun sem gerð var hjá Stéttarsambandi bænda varðandi þessar tillögur. Ég er ánægður yfir því, að það sannaðist að ég hafði rétt fyrir mér í því.

Ég hafði orð á því hér og tók undir þá áskorun sem hér hafði komið fram um að þetta mál yrði athugað ofan í kjölinn. Það olli mér nokkrum vonbrigðum, að hæstv. landbrh. taldi erfiðleikum bundið í þessu sambandi að ákveða ýmislegt sem hann tiltók, eins og það, hverjir ættu að teljast bændur og hverjir ekki, hverjir ættu að taka við greiðslum og hverjir ekki. En ég sé ekki betur en þetta séu nákvæmlega sömu spurningarnar og þarf að svara í sambandi við kvótakerfið eins og það er byggt upp, svo að það er hægt að vinna þær tillögur samhliða. Ég treysti því, að það verði lagt til þess verks og farið í það verk af fullri einurð og ekki með neikvæðum huga.

Hv. þm. Páll Pétursson hafði orð á því hér áðan, að hann væri sannfærður um að það tæki nokkurn tíma að koma þessari till. í framkvæmd, enda er ef treysta má því sem hann sagði um það efni — tilkoma hennar algerlega óvenjuleg á hv. Alþingi. Ég hef aldrei heyrt það sagt fyrr af manni, sem hefur staðið með till. og samþykkt hana, að hann hafi gert það fyrir einhvern annan fremur en eftir eigin sannfæringu.