25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 42 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„1. Eftir hvaða áætlun fer póst- og símamálastjórn í ákvarðanatöku um að leggja niður símstöðvar í dreifbýli án þess að sjálfvirkur sími taki við?

2. Hefur verið gerð eða er í gangi úttekt á póstþjónustunni í landinu með það fyrir augum, að íbúar jafnt í dreifbýli sem þéttbýli eigi sem greiðastan aðgang að viðunandi póstþjónustu?“

Ástæða þess, að ég ber þessar fsp. fram hér á hv. Alþ., eru almennar kvartanir í bréfum og fundum hreppsnefnda og annarra forráðamanna úr mínu kjördæmi vegna lélegs ástands í síma- og póstþjónustu, þá ekki hvað síst vegna þess að verið er að leggja niður eða áformað að leggja niður símstöðvar víðs vegar í Vesturlandskjördæmi, svo sem í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Mýra- og Borgarfjarðarsýslum sem og í öðrum kjördæmum landsins, án þess að íbúar þessara svæða telji sig fá þá þjónustu í staðinn er tryggi öryggi þeirra. Þarna er um að ræða símstöðvar sem starfræktar hafa verið í áratugi. Ég dreg ekki í efa að stjórnendur Pósts og síma telja sig vera að leysa viss vandamál stofnunarinnar til sparnaðar fyrst og fremst og vissulega er í mörgum tilfellum um að ræða mikilvæga framför í aukinni þjónustu og sem lið í uppbyggingu sjálfvirks síma með því að tengja viðkomandi sveitasíma við sjálfvirka símstöð. En málið er því miður ekki svona einfalt.

Í fyrsta lagi eru ekki nema fáar sjálfvirkar símstöðvar með sólarhringsþjónustu og eru því viðkomandi svæði algerlega útilokuð að ná sambandi hversu mikið sem við liggur. Við þessar breytingar hefur ekki legið fyrir áform um að jafnframt verði settur upp sjálfsali, sjálfvirkur sími á aðgengilegum stað í hverri sveit sem þannig missir sína símstöð. Kemur þar einnig til að víða í sveitum er símkerfið mjög lélegt og úr sér gengið, þolir varla slæm veður, viðhald mjög erfitt og illa skipulagt. Hér er því um að ræða alvarlegt mál íbúa dreifbýlisins, það er réttlætiskrafa þessa fólks að fá öryggi í þessum málum, sama rétt og þéttbýlið, sjálfvirkan síma og jöfnun kostnaðar, sem er í raun og veru stórmál eitt sér. Það er almennur kvíði fólksins við þessar breytingar að leggja niður símstöðvar í sveitum. Slíkar breytingar má helst ekki gera nema tryggt sé:

1. Um leið og símstöðvar eru lagðar niður án þess að sjálfvirkur sími komi í staðinn verði notendur, meðan það ástand varir, tengdir við símstöð þar sem starfrækt er sólarhringsþjónusta og ekki komi um leið til hækkunar símgjalda vegna breytinganna.

2. Settir verði upp jafnhliða sjálfsalar í hverri sveit, sem missir símstöð, á aðgengilegum stað fyrir íbúana.

3. Viðhald á símatínum á viðkomandi svæðum verði stóraukið og skipulagt upp á nýtt.

4. Það sem skiptir mestu máli: hraðað verði áætlun og framkvæmdum um sjálfvirkan síma um allt land, og ég vona að væntanleg sé ákvörðun um þetta mál sérstaklega. Ég tel vel koma til mála að tekin verði sú ákvörðun að heimila Pósti og síma að nota hluta söluskatts og útflutningstoll af efni og tækjum, sem stofnunin verður að greiða, í þetta ákveðna verkefni, þ.e. lagningu sjálfvirks símkerfis um landið. Á yfirstandandi ári mun t.d. söluskattsupphæð verða um 3 milljarðar og á næsta ári rúmir 4 milljarðar sem Póstur og sími greiðir vegna þessa.

Seinni liður fsp. minnar er um póstþjónustuna. Þetta er raunar nátengt. Um leið og símstöðvar eru lagðar niður er pósthirðing þar með úr sögunni. Sama er að segja um símstöðvar sem orðið hafa að stytta opnunartímann frá kl. 5 síðdegis föstudaga til mánudaga. Fellur þá niður ekki aðeins póstþjónusta, heldur er ekki möguleiki á því að senda símskeyti hvað mikið sem við liggur. Flutningakerfi mjólkurbifreiða er víða alls ekki notað til póstdreifingar þar sem ekki er greitt fyrir þá þjónustu. Þessi þýðingarmikli þjónustuþáttur er víðs vegar um land í óþolandi ástandi. Í mörgum sveitum verður fólk að fara tuga og jafnvel hundraða km leið til að koma ábyrgðarbréfi í póst eða ná í ábyrgðarbréf. Geta allir séð hversu áríðandi er að bæta hér um.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að beina spurningum um þessi þýðingarmiklu mál dreifbýlisins til hæstv. samgrh. hér á hv. Alþingi og um leið vekja athygli á alvöru þessa máls.