25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að hér er hreyft mjög mikilvægu máli sem nauðsynlegt er að ráða bót á og reyndar er verið að ráða bót á smám saman, en að sjálfsögðu, eins og á öðrum framkvæmdasviðum, hefur hraðinn farið eftir því, hvaða fjarmagn er fyrir hendi. Ég vil t.d. í upphafi míns máls upplýsa að ekki hefur tekist að öllu leyti að standa við framkvæmdaáætlun Pósts og síma nú í ár. Póstur og sími greiðir framkvæmdir úr rekstri, rekstrarafgangur rennur til framkvæmda. Sérstök lán hafa yfirleitt ekki verið tekin til framkvæmda í símamálum, t.d. í sveitum né reyndar í þéttbýli. Hins vegar hef ég lagt á það áherslu, að Póstur og sími hækki ekki gjöld sín umfram þau mörk sem hafa verið sett, en þetta hefur hins vegar leitt til þess, að framkvæmdafé Pósts og síma í ár hefur vegna verðbólgu orðið takmarkaðra en að var stefnt.

Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að þessum framkvæmdum þarf að hraða, en þá verða menn einnig að fjármagna slíkar framkvæmdir. Spyrjandi nefndi hugmynd um söluskatt. Að sjálfsögðu er það ekkert annað en fjármagn tekið frá ríkissjóði. Skiptir litlu máli hvort það heitir söluskattur eða annað.

Ég vil jafnframt upplýsa í upphafi míns máls, að verið er að endurskoða frv. sem hefur áður verið lagt fram um sjálfvirkan síma í sveitum landsins. Framkvæmdaáætlun er unnin af Pósti og síma, og ég geri ráð fyrir því að endurflytja það frv. mjög fljótlega.

Út af fsp. hv. þm. leitaði ég upplýsinga hjá Pósti og síma og ætla- með leyfi forseta — að lesa svar stofnunarinnar. Þar segir svo:

„Með tilvísun til bréfs samgrn., dags: 21. 10. 1980, móttekið 24. 10. 1980, varðandi fsp. á Alþingi, sbr. þskj. nr. 42, skal eftirfarandi upplýst:

1. Í þessum efnum er farið eftir fyrirmælum stjórnvalda um hagkvæmni, sparnað og aðhaldsaðgerðir eins og frekast er unnt. Þetta eru því þau meginsjónarmið sem ráða þegar m.a. handvirkar landsímastöðvar í dreifbýli eru lagðar niður. Hlutaðeigandi notendasímar eru þá tengdir til landssímastöðva með lengri þjónustutíma en þeir höfðu áður og helst næturþjónustu þannig að þjónustan batni nokkuð við breytinguna. Frumkvæðið að þessu leyti hefur legið hjá stofnuninni í þeim tilgangi að komast hjá miklum taprekstri á handvirkum landssímastöðvum til sveita.

Á undanförnum árum hafa þessar aðgerðir borið verulega góðan árangur. Til frekari skýringar skal þess getið, að þegar stöðvarstjóri á landssímastöð til sveita segir upp starfi er ævinlega athugað fyrst, hvort hægt sé að tengja hlutaðeigandi notendasíma til næstu landssímastöðvar í þéttbýli, áður en farið er að leita fyrir sér um nýjan stöðvarstjóra og væntanlega nýtt húsnæði fyrir landssímastöð. Þegar stöðvarstjórinn á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi sagði upp starfinu þar, svo að dæmi sé nefnt, var augljóst, að auðveldast var að tengja Hjarðarfell með tilheyrandi notendasímum annaðhvort til Stykkishólms eða til Borgarness. Þar eð línuleiðin til Stykkishólms er auðveldari hefði samtímis verið hægt að leggja niður fjórar aðrar landssímastöðvar á Snæfellsnesi sunnanverðu og um leið taka upp næturþjónustu í Stykkishólmi og þjóna símanotendum handvirkra stöðva í Dalasýslu líka. En þegar þessi mál voru athuguð og rædd við hlutaðeigandi heimamenn í sveitum á sunnanverðu Snæfellsnesi kom í ljós, að þeir telja svo að segja öll sín símaviðskipti vera við Borgarnes. Hugmyndin um tengingu til Stykkishólms var þar með úr sögunni. Því er eina leiðin, sem fær er til úrlausnar símnotendum Hjarðarfells, að tengja síma þeirra til Borgarness, en þar er starfsrækt næturþjónusta eins og kunnugt er. Landssímalínan frá Borgarnesi og vestur rúmar ekki fleiri sambönd að sinni. Aðrar landssímastöðvar verða því óbreyttar nú um nokkurt skeið.“

Áður en ég kem að svari við 2. lið vil ég vekja athygli á því, sem kemur fram í þessu svari, að þegar um slíkar breytingar er að ræða er þess vandlega gætt að hafa samband við símnotendur á svæðinu. Ég hef rætt þetta bæði við póst- og símamálastjóra og fleiri starfsmenn þar, og þeir fullvissa mig um að það sé gert. Einnig, eins og kemur fram í svarinu, er þess gætt, að símaþjónusta verði ekki skert. Til tals kom að taka upp næturvörslu í Stykkishólmi til þess að símaþjónusta yrði þar með aukin á þessu svæði. Ég get jafnframt bætt við þær sérstöku upplýsingar, sem þarna koma fram um Snæfellsnesið, að vegna svipaðra framkvæmda í Dalasýslu er fyrirhugað að tekin verði upp næturþjónusta í Búðardal. Ég get einnig upplýst, að í hreppum í Strandasýslu, þar sem stöðvar verða lagðar niður að höfðu samráði við heimamenn, eins og staðið hefur fyrir dyrum í nokkurn tíma, verða settir upp sjálfvirkir símar á tveimur stöðum í þessum hreppum sem eru aðgengilegir fyrir íbúa svæðisins.

Ég kem þá að 2. lið fsp. og vísa enn til svars póst- og símamálastjóra, með leyfi forseta:

„2. Póstur er fluttur á landi eftir póstáætlun sem skiptist í fjóra hluta: 1. Póstferðir með flugvélum. 2. Póstferðir með bifreiðum. 3. Póstferðir með skipum. 4. Póstútburður. Áætlun þessi gefur glögga mynd af póstferðatíðni eða dreifingu og er stöðugt í endurskoðun og póstgöngur í endurskipulagningu. Þannig hefur t.d. á undanförnum árum verið fjölgað landpóstferðum úr einni ferð í viku í tvær til fjórar ferðir. Í dreifbýlinu er almennur póstur ýmist fluttur heim á bæina eða afhentur í póstkassann við aðalveg. Í kaupstöðum og kauptúnum er almennur póstur á flestum stöðum borinn út fimm sinnum í viku. Undantekningar eru minnstu kauptúnin með bréfaútburð tvisvar til þrisvar í viku. Mikil aukning hefur orðið á póstflutningum milli staða með flugvélum. Bæði hafa áætlunarferðir verið nýttar meira og auk þess leiguflugvélar á nokkrum leiðum. Þá er unnið að því að bæta póstþjónustuna í dreifbýli þannig að landpóstar flytji allar tegundir póstsendinga til og frá bæjum í sveitum, svo sem bögglapóstsendingar, annist innheimtu á póstkröfum, inn- og útborgun póstávísana og gíróþjónustu. Er þessi þjónusta víða komin í gott horf.

Póststöðvar eru í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins og er í þeim opin afgreiðsla fyrir almenning á venjulegum viðskiptatíma, kl. 9–17, með örfáum undantekningum.

Framangreind póstáætlun fylgir hér með,“ segir í bréfinu. Það er heljarmikil bók, sem fyrirspyrjandi getur fengið í hendurnar ef hann óskar.

„Að lokum skal á það bent, að fyrir um það bil 6 árum var samin ritgerð um póstverkefni við viðskiptadeild Háskóla Íslands, um kostnaðarskiptingu milli póstþjónustu annars vegar og símaþjónustu hins vegar. Ritgerð þessi er hin athyglisverðasta og telja sérfræðingar að ekki hafi orðið hingað til þær grundvallarbreytingar, er raski niðurstöðu ritsins. Sé framangreind kostnaðarskipting lögð til grundvallar þegar rekstur áranna 1979 og 1980 er skoðaður kemur í ljós að rekstrarhalli póstþjónustunnar er sem hér segir: Árið 1979 var rekstrarhalli um 760 millj. kr. Árið 1980 var rekstrarhalli áætlaður um 1100 millj. kr.

Lengi hefur verið ljóst að innrituð blöð og tímarit hafa verið þungur baggi á póstþjónustunni. Ítarleg athugun á þjónustugreinum póstsins hefur leitt í ljós, að ef innrituð blöð og tímarit eru að magni til borin saman við heildarpóstmagnið verður tapið í sambandi við innrituð blöð og tímarit fyrir árið 1979 um 770 millj. kr. og fyrir árið 1980 um 1100 millj. kr. eða svipað og rekstrarhalli póstþjónustunnar. Nauðsynlegt er að finna réttláta lausn á þessu vandamáli svo fljótt sem verða má,“ segir að lokum í svarbréfi póst- og símamálastjórnar.

Ég vil að lokum taka fram, að undan ýmsum breytingum, sem póst- og símamálastjórnin hefur gert á þjónustu sinni vegna þrýstings, sem ég hygg að sé ekki nýlega til kominn, um sparnað, hefur oft verið kvartað. Ég nefni t.d. þá ákvörðun póst- og símamálastjórnarinnar að loka sjálfvirkum stöðvum eftir kl. 5 á virkum dögum og laugardaga, og sunnudaga, sem ég er með í athugun. Ég hef óskað eftir að kannað verði hvort ekki væri hægt að hafa einhverja þjónustu á laugardögum. Ég nefni þetta sem dæmi og gæti nefnt fjölmörg fleiri, en tími minn er útrunninn.