25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil, eins og aðrir sem hér hafa talað, þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fsp. sem er á dagskrá. En hún gengur ekki nógu langt að mínu mati. Það er verið að leita eftir svari við því, eftir hvaða áætlun póst- og símamálastjórnin fer í töku ákvarðana um að leggja niður símstöðvar. Undir lið 2 er spurt um hvað hafi verið gert eða sé í gangi um úttekt á póstþjónustunni í landinu. Ég hefði viljað fsp. um hvað hafi verið gert í úttekt á póst- og símaþjónustunni í landinu.

Ég flutti hér frv. til breytinga á lögum um póst- og símaþjónustu á síðasta þingi. Hún gekk í þá átt að símar væru alls staðar á landinu. Við erum alls ekki búnir að símavæða landið. Við erum með bráðabirgðafyrirkomulag úti á landi. Þetta frv., sem ég vil minna á hér, var um að endurskoða starfsemi Pósts og síma í heild með það fyrir augum að leggja niður póst- og símaskólann, leggja niður allan innflutning á símatækjum og tólum, leggja niður alla fjárfestingu í varahlutum eða lögnum og láta starfsemi Pósts og síma hafa þá peninga sem fara í þessa starfsemi, því þetta er mikil og dýr starfsemi með birgðir varahluta og tækja. Sú starfsemi fari í hendur rafvirkja, og rafvirkjar læri sína iðn, símavirkjun, í Iðnskólanum. Síma- og póstþjónustan hafi þá ekki lengur þá þjónustu á hendi sem hún hefur nú, en peningarnir, sem hið opinbera lætur í þennan hluta póst- og símaþjónustunnar, gangi til þess að símavæða landið allt. Ég held að það væri hægt að gera það á tiltölulega skömmum tíma án þess að auka framlag til Pósts og síma í þeim tilgangi.