25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

40. mál, þjónusta Pósts og síma

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja þessar spurningar fram og einnig þakka ráðh. svar hans. En ég gat ekki á mér setið að segja nokkur orð um það svar og sérstaklega um þann þátt þar sem sagt er að Póstur og sími sjái vandlega um það að hafa samband við notendur þegar breytingar eigi sér stað í sambandi við þjónustu símans. Ég held að því miður sé þessu algerlega öfugt farið. Þegar breytt var þjónustu símstöðvanna á utanverðu Snæfellsnesi, á Hellissandi, lokað á laugardögum og alla helgidaga, þá veit ég ekki til þess, að það hafi verið haft samband við neinn aðila á staðnum, heldur hafi sú skipun aðeins komið frá hv. yfirvöldum Pósts og síma. Nákvæmlega sama skeður þegar breytingar eiga sér stað á sunnanverðu Snæfellsnesi, þær sem lýst var í svari hæstv. ráðh. Okkur þm. Vesturl. var sagt frá því, að það ætti að loka stöðvunum á Hjarðarfelli, Furubrekku, Rauðkollsstöðum og Haukabrekku, þ.e. fjórum stöðum á sunnanverðu Snæfellsnesi, og það væri út af því að á Hjarðarfellsstöðinni hefði símstöðvarstjórinn sagt upp starfi. Þetta kom okkur svolítið á óvart. Eftir um hálfan mánuð, þegar ég átti leið vestur á Snæfellsnes og hitti símstöðvarsjórana á viðkomandi stöðum, kom það í ljós að þeim hafði ekki verið sagt frá þessu enn. Þeim hafði ekki verið sagt frá því, að til stæði að loka stöðvum þeirra, um það bil hálfum mánuði eftir að okkur þm. hafði verið tilkynnt um þetta. Þetta kalla ég svolítið annað en að hafa vandlega gætt þess að hafa samband við notendur, það var ekki einu sinni haft samband við starfsmenn símans.

Ég hef áhuga á að segja nokkur orð til viðbótar, ef ég brýt ekki mikið af mér, herra forseti, og nefna næturþjónustuna sem nú var nefnt að skyldi koma, en fram að þessum tíma hefur algerlega verið forsmáð á vissum svæðum, t.d. á Vesturlandi. Fyrirspyrjandi nefndi þar Búðardal. Sama er að segja um næturþjónustu gagnvart hreppum í námunda við Stykkishólm.

Þegar talað er um að síminn gæti mikils sparnaðar, þá held ég að því miður sé þar oft og tíðum um öfugmæli að ræða. Þannig hefur það a.m.k. verið gagnvart okkur vestur frá, að allt frá því að sjálfvirki síminn var lagður vestur í þorpin á Snæfellsnesi hefur útbúnaður símans verið þannig, að hann hefur ekki nýst nema að hálfu leyti. En til þess að mætti nýta hann þurfti tiltölulega lítinn kostnað, en sá kostnaður var látinn liggja á milli hluta og síminn hafður hálfóvirkur á utanverðu Snæfellsnesi árum saman.