25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

44. mál, framkvæmd ákvæða 59. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. voru sendar ríkisskattstjóra til umsagnar. Borist hefur ítarlegt svar frá ríkisskattstjóra sem ásamt fylgigögnum mundi taka um 30–40 mínútur að gera hér grein fyrir. Þar sem ræðutími ráðh. við að svara fsp. er aðeins 10 mínútur verður að flytja valda kafla úr þessum svörum og skal þess nú freistað.

Fyrsta spurningin var hvort ríkisskattstjóri hafi gefið út viðmiðunarreglur fyrir aðrar atvinnugreinar en landbúnað, hvaða atvinnugreinar hafi þá verið um að ræða og hverjar hafi verið meginforsendur þeirrar viðmiðunar.

Svar ríkisskattstjóra er: Hinn 5. maí 1980 gaf ríkisskattstjóri út og sendi skattstjórum viðmiðunarreglur samkv. ákvæðum 59. gr. áðurgreindra laga. Viðmiðunarreglur þessar eru ekki bundnar sérstökum atvinnugreinum nema að takmörkuðu leyti, svo sem meðfylgjandi eintak af viðmiðunarreglunum sýnir, enda þess ekki krafist samkv. ákvæðum laganna. Einstaklingar með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eru flokkaðir með tilliti til eðlis þeirra starfa, sem þeir hafa með höndum, en geta fallið undir flestar atvinnugreinar. Meginforsendur viðmiðunarupphæða eru byggðar á upplýsingum úr launakjarasamningum og enn fremur var stuðst við upplýsingar úr launaframtölum ýmissa aðila, sem unnin voru sem úrtak með það í huga að fá sem nákvæmastar upplýsingar um þessi atriði. Rétt þykir að taka fram að við ákvörðun á viðmiðunarupphæðum er almennt reiknað með álagi vegna framkvæmdastjórnar, um 20% hærri upphæð en ætla má að bein laun manns hefðu orðið ef hann hefði unnið starfið sem launþegi hjá óskyldum aðila. Álag þetta er byggt á sömu torsendum og lög nr. 14/1965 og reglugerð nr. 119/1965 um launaskatt kveða á um við ákvörðun stofns til launaskattsálagningar á menn með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.

Til viðbótar þessu svari ríkisskattstjóra er líklega rétt að vitna hér í gögn þau sem hann sendi með svarinu um meðaltalsviðmiðunarreglur til ákvörðunar endurgjalds gjaldárið 1980. Þar kemur fram að meðaltalsviðmiðunartekjur eru miðaðar við venjulegan vinnutíma, þ.e. 40 tíma á viku og lögbundið sumarfrí. Ef um yfirvinnu, ákvæðisvinnu eða umframgreiðslur almennt er að ræða í viðkomandi starfsgrein á hverjum stað ber skattstjóra að meta það til hækkunar.

1. Sérmenntaðir menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í sérgrein sinni með eða án aðstoðarfólks. Hér falla undir t.d. lyfjafræðingar, læknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur, ráðgjafa sérfræðingar hvers konar, verkfræðingar og þess háttar. Árslaun 8 millj. 100 þús. kr.

2. Stjórnendur í eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sem hafa greitt laun sem samsvara launum fyrir störf þriggja eða fleiri launþega á árinu. Hér fellur undir t.d. iðnaðar- eða iðjurekstur, innflutnings- eða útflutningsrekstur, verslun hvers konar, umboðssala, persónuleg þjónusta, sem fellur ekki undir stafliði a og d, þ.e. stafliði um sérmenntaða menn og iðnaðarmenn, sem vikið verður að á eftir, árslaun 7.5 millj. kr.

3. Menn sem vinna einir við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, en gætu þó hafa greitt laun sem samsvara launum fyrir störf eins eða tveggja launþega á árinu. Hér falla undir t.d. menn sem eru með sama atvinnurekstur og um ræðir í seinasta staflið, árslaun 6.4 millj. kr.

4. Iðnaðarmenn. Hér falla undir þeir menn sem vinna að iðngrein sinni að meginhluta. Ef stjórnun á mönnum og verkum er veigamikill þáttur í starfi þeirra, falla þeir undir 2. staflið, þ.e. stjórnendur í eigin atvinnurekstri. Undir þennan starflið falla í fyrsta lagi iðnaðarmenn við byggingarframkvæmdir hvers konar, járn- og vélsmíði, skipasmíði, blikksmíði og prentun, árslaun 4.9 millj. kr. Í öðru lagi iðnaðarmenn aðrir, árslaun 3.9 millj. kr.

5. Menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem ekki fellur undir áðurgreinda stafliði, svo sem bifreiðastjórar, hreingerningamenn, stjórnendur vinnuvéla og þess háttar, árslaun 3.4 millj. kr.

6. Sjómenn sem starfa sem skipverjar við eigin útgerð. Árslaun skal miða við kaup og aflahluti samkv. kjarasamningum og hliðstæðum greiðslum til annarra skipverja á sama skipi.

7. Bændur. Þar er vísað til sérstakra meðaltalsviðmiðunarreglna sem bændur varða. Allt of langt mál yrði að rekja meðaltalsviðmiðunarreglur til ákvörðunar endurgjalds bænda, en ég vil hér aðeins stikla á örfáum grundvallaratriðum. Heildartekjur grundvallarbúsins eru reiknaðar 12 223 200 kr. á árinu 1979. Ef heildartekjur búsins eru lægri en þessari upphæð nemur ber að ætla að stærð búsins nái ekki stærð grundvallarbúsins, og eru því viðmiðunartekjur þessa manns lækkaðar í sama hlutfalli og heildartekjur eru lægri en heildartekjur grundvallarbúsins. Enn fremur er meðal annarra atriða tekið tillit til aðstæðna hverju sinni við ákvörðun viðmiðunartekna, svo sem þess ef bóndi nær ekki heildartekjum grundvallarbúsins vegna afurðaverðs, árferðis eða annarra atriða sem máli skipta, svo sem aldurs, heilsu og starfstíma, vinnu utan búrekstrar eða aðkeyptrar vinnu. Síðar í þessum sömu reglum segir: „Viðmiðunartekjur bónda, sem stundar einn búskap með eða án aðkeypts vinnuafls eða í samrekstri með öðrum en maka, teljast með hliðs jón af framangreindu vera 4 010 000 kr. Og áfram segir hér: Standi hjón bæði að búrekstrinum skal reiknað endurgjald hjónanna samtals eigi vera lægra en launaþáttur grundvallarbúsins eða 6 786 500 kr. Hreinum tekjum skal skipt milli hjóna í hlutfalli við vinnuframlag hvors um sig. Á sama hátt skal skipta rekstrartapi. Síðan er hér fjallað um hvernig reikna skuli börnum tekjur.

Önnur spurning hv. fyrirspyrjenda var hvort skattstjórar hafi beitt ákvæðum tilgreindrar lagagreinar, þ.e. 59. gr. laga nr. 40/1978, við álagningu árið 1980 í öllum umdæmum og hvort samræmi hafi verið í viðmiðunar- og starfsreglum milli einstakra skattaumdæma. Svar ríkisskattstjóra er:

Fyrirspyrjendur hljóta að eiga við hvort skattstjórar hafi við álagningu kannað sérstaklega hvort sérhver maður með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hafi fært sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir „starf sitt“ en ef hann hefði innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila, eins og segir í ákvæði 2. mgr. 1. tölul. a-liðar 7. gr. skattalaganna. Ljóst er að eftir svo víðtækar breytingar sem gerðar voru á skattalögunum, og ekki síst við þær aðstæður sem voru á árinu 1980 til vinnslu skattgagna, voru framtöl skattaðila nánast lögð óbreytt til grundvallar álagningu í samræmi við ákvæði 59. gr. laganna eða með lágmarksbreytingum, eftir því sem aðstæður hjá hverjum skattstjóra leyfðu. Skattstjórar lögðu þó vinnu í að endurskoða þennan lið framtals eftir því sem tími og aðstæður leyfðu og þá í samræmi við viðmiðunarreglur og starfsreglur ríkisskattstjóra. Kann því að vera að einhver mismunur sé á meðferð þessa atriðis milli skattumdæma fyrir álagninguna, en sá mismunur ætti að hverfa við nánari yfirferð skattframtala nú í haust í þeim umdæmum sem áttu eftir að endurskoða þetta atriði til fullnustu.

Í lið þriðja þáttar fsp. er spurt hvernig háttað hafi verið mati á aðstæðum þar sem gæta skal aðstöðu viðkomandi aðila, aldurs hans, heilsu og starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli skipta. Svar við þessum staflið fsp. er:

Það er alfarið í höndum skattstjóra að taka tillit til og úrskurða áður greindar aðstæður hvers og eins aðila með tilliti til þeirra upplýsinga sem aðili leggur fram með skattgögnum sínum. Ríkisskattstjóri setti fram meginreglur varðandi þetta atriði í bréfi, dags. 13. maí 1980, varðandi starfsreglur og leiðbeiningar vegna endurskoðunar á tekjuliðnum „reiknað endurgjald.“ Þar segir m.a.:

Við beitingu viðmiðunarreglna skal í öllum tilvikum taka tillit til þeirra aðstæðna viðkomandi aðila, hvort sem þær eru almennar eða varða hann einan, sem áhrif geta haft á teknaöflun hans, sbr. 3. málslið 1. mgr. 59. gr. og 4. málsl. varðandi þá sem landbúnað stunda. Geta þessar aðstæður leitt til þess, að endurgjaldið er ákvarðað ýmist hærra eða lægra en viðmiðunartekjurnar. Sú sérregla gildir þó um þá sem landbúnað stunda, að í 4. málsl. 1. mgr. 59. gr. er um að ræða lögmælt hámark viðmiðunartekna, þannig að þær aðstæður, er þar greinir, koma einungis til skoðunar til lækkunar á viðmiðunartekjum. Upplýsingar um aðstæður, er taka ber tillit til, geta komið fram á samræmingarblaðinu, á sérblaði eða með aths. á rekstrarreikningi. Einnig er unnt að fá fræðslu um aðstæður viðkomandi aðila á skattgögnum, er hann varða, svo sem á launaliðum skattframtals, á launamiðum, launamiðafylgiskjölum umsókn vegna 66. gr. o.s.frv. Ríkisskattstjóri hefur ekki sett fram aðrar reglur til skattstjóra um framkvæmd þessa atriðis, enda er hér um að ræða mál, sem mjög erfitt er að setja um nánar reglur þar sem nánast er fjallað um séraðstæður hvers aðila. Skattstjórar verða því að meta aðstæður hvers og eins aðila á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja hverju sinni.

Herra forseti. Ég á enn eftir að svara staflið b í þriðju fsp., og ég held að það verði að taka eitthvert tillit til þess ef fsp. eru mjög margþættar.

Spurt er, hvernig háttað var mati á aðstæðum þar sem taka þarf tillit til aðstæðna í landbúnaði hverju sinni, svo sem þess, ef bóndi nær ekki heildartekjum grundvallarbúsins vegna afurðaverðs, árferðis og annarra atriða er máli skipta.

Svarið er: Meðaltalsviðmiðunarreglur til ákvörðunar endurgjalds bænda, maka þeirra og barna gjaldaárið 1980 voru gefnar út með bréfi til skattstjóra, dags. 5. maí 1980, og síðar almennar reglur um áhrif vegna vöntunar afurðaverðs og vegna árferðis með bréfi, dags. 22. maí 1980. Í meðaltalsviðmiðunarreglunum frá 22. maí kemur fram að vöntun á afurðaverði ársins 1978 er talin hafa numið 8.75% af heildartekjum grundvallarbúsins það ár, sem að meðaltali leiddi til lækkunar heildartekna grundvallarbúsins á árinu 1979 um 752 691 kr. Jafnframt var tekið tillit til áhrifa árferðis 1979 og þar stuðst við útreikninga Stéttarsambands bænda, sem lagðir voru fram ásamt gögnum um meðalvigt dilkakjöts árið 1979, sem var nokkuð mismunandi á landinu. Meðaltalsafurðarýrnun á árinu 1979 var talin hafa numið 9.46%, sem lækkar launaþátt grundvallarbúsins um 367 304 kr.

Þar sem áhrif þessa þáttar voru eins og áður segir mismunandi á landinu var stuðst við upplýsingar sláturhúsa um meðalvigt dilka milli áranna 1978 og 1979 þegar áhrif árferðis á tekjur bænda voru metin af skattstjórum.

Herra forseti. Ég tel að ég hafi svarað þeim fsp. sem hér komu fram, a.m.k. þeim skriflegu, en ég held að ég verði að láta bíða betri tíma að svara munnlegu fsp. sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, enda ekki í svipinn neitt nýtt að frétta af þeim málum umfram það sem áður hefur komið fram opinberlega. Ég vil láta þess getið, vegna þess að hér er um allítarleg gögn að ræða, að ég mun láta ljósrita þessi gögn í nokkrum eintökum og geta menn þá væntanlega fengið þau á skrifstofu þingsins, þeir sem þess óska.