25.11.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

44. mál, framkvæmd ákvæða 59. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka fjmrh. fyrir svör hans, en ég held að það verði að reyna að ganga í það með meiri krafti að reyna að fá leiðréttingu á þessum málum. Ég er með fyrir framan mig blaðaúrklippu. Er þar viðtal við einn þann sem er í nefndinni sem á að athuga þessi mál, þ.e. Árna Jónasson, og hann kemst þannig að orði, að annaðhvort verði með þessu vísað úr bændastéttinni ungum mönnum með eignaupptöku eða þessir skattar verði aldrei innheimtir. Þetta er hans mat.

Það kemur líka fram hjá honum, að giftum mönnum eru reiknuð 45–48% af brúttótekjum búsins, en aftur á móti einhleypingum 24–28%.

Ég held að það séu svo mörg dæmi sem við höfum fyrir framan okkur í sambandi við hvernig útkoman er á þessum sköttum að það verði ekki undan því vikist að fá leiðréttingar á þessu máli. Árni nefnir einn skuldugan bónda sem er reiknaður 13 millj. verðbólgugróði út af skuldunum sem hann þó ræður ekkert við. Það gerir eignafærslan. (Forseti hringir.) Forseti, ég er nú annar fyrirspyrjandinn og ætti að fá meira en tvær mínútur a.m.k. (Forseti: Ekki samkv. þingsköpum.) — Það er dálítið einkennilegt að þetta skuli koma svona út. En maður, sem er við hliðina á honum og er með betur stæðum bændum sveitarinnar, fær samkv. sömu ákvæðum tekjufærslu til frádráttar þannig að ríkið borgar jafnvel hluta af útsvari hans.

Ég er á mælendaskrá í umr. um sama efni, sem kemur líklega fyrir á morgun, og mun þá bæta við þetta.