21.10.1980
Sameinað þing: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

337. mál, málefni Flugleiða

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hér í Sþ. hefur verið lögð fram ítarleg skýrsla um Flugleiðamálið, og í Ed. Alþingis hefur verið lagt fram sérstakt frv. um málefni Flugleiða hf. Í raun er litlu við þessi þskj. að bæta að sinni. Ríkisstj. hefur bersýnilega gert hreint fyrir sínum dyrum. Hún hefur lagt fram þau gögn, sem fyrirliggjandi eru, a.m.k. þau mikilvægustu, og markað skýra stefnu í málinu.

Vissulega er ýmsum spurningum enn ósvarað. Eftir er að svara þeirri spurningu, hvaða veð verða sett vegna ábyrgða sem félagið óskar eftir að ríkissjóður taki á sig. Eftir er að svara því til, hver verður heildarupphæð ábyrgðarheimildanna. Og eins er eftir að svara því, hverjir verða aðrir þeir skilmálar sem ríkisstj. hlýtur að setja.

Þessum spurningum verður ekki svarað í dag. Þess er ekki nokkur kostur. Við verðum að geyma svarið þar til frekari upplýsingar liggja fyrir og nánari rannsókn á eignarstöðu fyrirtækisins hefur farið fram.

Hæstv. samgrh. hefur rakið hér forsögu þessa máls og ég sé ekki ástæðu til að bæta þar miklu við.

Á s.l. sumri voru uppi áform um gífurlegan samdrátt í flugrekstri félagsins, og eftir að viðræður höfðu farið fram milli forráðamanna félagsins og stjórnvalda í Lúxemborg og íslenskra stjórnvalda gerði ríkisstj. samþykkt hinn 16. sept. s.l. um afstöðu sína til þessa máls. Í þessari samþykkt er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður veiti í 3 ár bakábyrgð sem nemi um það bil þeim tekjum sem ríkissjóður hefur haft af umræddu flugi, allt að 3 millj. dollara á ári. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að eignarhluti ríkissjóðs verði aukinn í 20% hlutafjárins. Í þriðja lagi, að Atlantshafsflugið verði aðskilið frá grundvallarfluginu, eins og frekast er unnt, t.d. með aðskildum fjárhag og e.t.v. sérstakri rekstrarstjórn.

Í samþykktinni var um það rætt, að samstarf og samstaða stjórnar og starfsliðs Flugleiða þyrfti að batna og ríkisstj. vildi stuðla að því, að svo gæti orðið, m.a. með því að starfsliði yrði gefinn kostur á auknum hlut í félaginu og aðstöðu til að fylgjast með ákvarðanatöku.

Ég rek ekki frekar þessa samþykkt ríkisstj. frá 16. sept s.l., en ég held að ég geti leyft mér að fullyrða að ríkisstj. hafi staðið við öll þau fyrirheit sem fólgin voru í þessari yfirlýsingu. Hún hefur undirbúið málið á þessum grundvelli, og það frv., sem nú hefur verið lagt fyrir Ed., er fullkomin staðfesting á þessari stefnu ríkisstj.

Hitt er allt annað mál, að viðhorf forustumanna Flugleiða hafa birst stjórnvöldum í nokkuð breytilegu ljósi frá einum tíma til annars. Upphaflega var um það rætt, eins og samþykkt ríkisstj. frá 16. sept. bar ljósan vott um, að ríkissjóður veitti félaginu bakábyrgð allt að 3 millj. dollara á ári. En síðar var leitað eftir því, að um yrði að ræða beina greiðslu úr ríkissjóði, sem kæmi til gjalda á næstu mánuðum, greiðslurnar hæfust raunar þegar í þessum mánuði og þeim lyki að 6 mánuðum liðnum eða í marsmánuði n.k.

Í öðru lagi kom í ljós, að tilboð ríkisstj. frá 16. sept s.l. reyndist í raun aðeins litið brot af þeirri fyrirgreiðslu sem félagið þurfti á að halda þegar nánar var að gáð. Hér var komið er að óvörum og áreiðanlega að mörgum fleirum.

Sömu dagana og verið er að ganga endanlega frá tilboði ríkisstj. til Flugleiða, — tilboði sem hafði verið í undirbúningi í viðræðum félagsins og stjórnvalda um eins mánaðar skeið, kemur fram ósk frá félaginu um ábyrgð ríkissjóðs að upphæð 12 millj. dollara, sem nemur um 6 milljörðum ísl. kr. Þessi ábyrgðarbeiðni kemur til viðbótar við beiðni sem Alþ. hafði áður afgreitt, að upphæð 6 millj. dollara, á vormánuðum þessa árs. Hér var því bersýnilega um miklu stærra mál að ræða en áður hafði verið kynnt. Málið hafði bersýnilega verið rætt í heilan mánuð án þess að stjórnvöldum væri kynnt hin raunverulega rekstrarstaða félagsins.

Afstaða ríkisstj., eftir að þessi beiðni barst, var og er sú, að rétt væri að veita félaginu umbeðna bakábyrgð upp á 3 millj. dollara, sem kæmi þó ekki sem greiðsla beint úr ríkissjóði, heldur hlyti þar að verða um lánsfyrirgreiðslu að ræða, ef félagið þyrfti á fyrirgreiðslunni að halda fyrr en áður hafði verið reiknað með. Frv. ber þess einmitt vott, að reynt er að haga málum með þessum hætti.

Í öðru lagi er ríkisstj. reiðubúin að leggja fram aukið hlutafé til félagsins ef Alþ. samþykkir. En að öðru leyti verður það að ráðast af þeim veðum, sem fyrir hendi eru, hversu mikla ábyrgð á fjárhagsskuldbindingum félagsins ríkissjóður treystir sér til að taka. Einmitt þess vegna hófst fyrir nokkrum vikum ítarleg rannsókn á veðhæfni eigna félagsins.

Í samráði við Seðlabankann hefur fjmrn. leitað til tveggja valinkunnra manna, verkfræðings og lögfræðings, Péturs Stefánssonar og Sveinbjörns Hafliðasonar og beðið þá að gera sérstaka úttekt á fasteignum fyrirtækisins. Eiga þeir að segja til um hversu miklar ábyrgðir hægt sé að veita út á þær eignir. Ljóst er að mat á bókfærðum eða endurmetnum eignum er ónákvæmt og full þörf á því, að tryggilega sé frá því gengið, að um réttar tölur sé að ræða.

Í öðru lagi hefur Seðlabankinn að tilhlutan fjmrn. leita til Landsbankans og óskað eftir því, að hann fengi viðskiptabanka sína til að benda á aðila sem hæfir væru til að meta flugvélar Flugleiða vegna væntanlegrar ríkisábyrgðar. Landsbankinn sneri sér til Scandinavian Bank í London og City Bank í New York, og þessir bankar bentu á þrjá aðila sem gætu tekið að sér þetta verk. Í framhaldi af þeirri athugun hefur Seðlabankinn, að höfðu samráði við fjmrn., falið Continental Aircraft Services þetta verkefni, en það er fyrirtæki sem starfar í Los Angeles.

Þessi ákvörðun var tilkynnt hinu bandaríska fyrirtæki s.l. föstudagskvöld, 17. okt., og menn frá þessu fyrirtæki komu til landsins í gærmorgun og eru þegar byrjaðir gagnasöfnun vegna þessa mats.

Það er von fjmrn., að þessari rannsókn geti verið lokið um næstu mánaðarmót.

Meðan þessi mál hafa verið á döfinni undanfarnar vikur og mánuði hefur margt verið skrifað í blöð, eins og gefur að skilja. Hér verður þó ekki hjá því komist að nefna sérstaklega skrif Morgunblaðsins, sem hafa skorið sig nokkuð úr. Í þessu blaði hefur verið nær daglega mjög harðvítug viðleitni til þess að skapa tortryggni á gerðum stjórnvalda í þessu máli, og sérstaklega áköf hefur viðleitnin verið til að koma höggi á einn stjórnarflokkinn, Alþb., og reyna að telja fólki trú um að sá flokkur vinni að því öllum stundum að koma þessu félagi á kné.

Athugasemdir eftirlitsmanna ríkisins, sem gerðu athugasemdir við reikninga félagsins og fyrirliggjandi mat á eignum og áætlaðri veðhæfni eigna, voru gerðar eins tortryggilegar og hugsast gat og allt gert til þess að telja fólki trú um að engin ástæða væri fyrir ríkisvaldið til að rannsaka þessi mál frekar en orðið var.

Ég vil segja það hér og nú, að þessi skrif voru ekki aðeins furðuleg, þau voru stórhættuleg. (Gripið fram í: Það voru nú aðallega ráðh. sem voru hættulegir, held ég.) Ég held að það væri best fyrir hv. þm. að biðja um orðið og taka til máls hér á eftir frekar en vera að tísta hér úr sæti sinu svona inn á milli. (Gripið fram í: Það gat nú verið ástæða til.)

En ég endurtek, að hér voru á ferðinni skrif sem vissulega fólu í sér mikla hættu. (Gripið fram í: Getur þú dæmt um það?) Þessi skrif fólu það í sér, að fjmrh. og Alþ. áttu að taka á sig ábyrgð á 10 milljörðum króna án þess að viðhlítandi rannsókn færi fram á því, hvort trygging væri fyrir þessari fjárhæð. Sem sagt, ríkisstj. átti að taka ábyrgð á því, að lögð væri á skattgreiðendur áhætta sem næmi um það bil öllum þeim gjöldum af eignarskatti sem íslenskir skattgreiðendur greiða nú til ríkisins. Þeir menn, sem unnu að því að fá úr því skorið, hversu mikil þessi áhætta væri, voru svívirtir í Morgunblaðinu og kallaðir öllum illum nöfnum. (Gripið fram í.) Ég heyri að það er töluverð viðkvæmni hjá sumum, að þetta skuli rifjað upp hér. En sérstaklega þótti grunsamlegt að uppi væru skoðanir um það, að félagið þyrfti hugsanlega að selja eignir til þess að geta talist hafa veð í lagi fyrir þessum ábyrgðarheimildum. Í grein eftir grein í þessu blaði var því haldið fram, að um væri að ræða einhliða fyrirskipanir stjórnvalda til Flugleiða hf. að selja þessa eignina eða hina eignina, og skrifaðir um það margir langhundar, bæði í Reykjavíkurbréfum og leiðurum. (Gripið fram í: Var þetta úr lausu lofti gripið?) Já, þetta var úr lausu lofti gripið, það var áreiðanlegt, og skal nú sýnt fram á það. Hinn 1. okt. s.l. sendu Flugleiðir hf. bréf til ríkisstj. sem stílað var á Steingrím Hermannsson samgrh., þar sem gerð er grein fyrir því, hvaða eignir gæti komið til greina að selja af heildareignum fyrirtækisins. Þetta bréf er birt með frv. ríkisstj. sem fskj. II, og ég vil benda hv. þm., sem sumir hverjir kynnu að vera ófróðir um raunverulegt baksvið þessara mála, að lesa efni þessa bréfs. Ég vil sérstaklega nefna hér niðurlag bréfsins, en þar segir með leyfi forseta:

„Flugleiðir telja æskilegast að ef um sölu eigna yrði að ræða, væri hagkvæmast að selja eftirfarandi eignir. Er þá gert ráð fyrir að ekki tækist sala á flugvélum vegna erfiðs markaðar:

1. Cargolux. — Fyrirtækið telur að með því að selja hlutabréf Cargolux mundi skapast að lágmarki fjórfalt verðmæti. Bætt greiðslufjárstaða að upphæð 6.5 millj. Bandaríkjadala.

2. Sala skrifstofubyggingar.“ — Ég les ekki það sem þar segir um hvernig haga mætti þeirri sölu, enda geta þm. lesið það í þessu frv.

Í þriðja lagi er bent á að hugsanlegt sé að auka hlutafé. Ég held að þetta bréf, sem ég hirði ekki um að rekja frekar, taki af öll tvímæli um það, að hugleiðingar stjórnvalda um hugsanlega sölu á eignum Flugleiða byggðust á viðræðum við félagið og á hugleiðingum forustumanna félagsins um það nákvæmlega sama. Þessar ásakanir voru því algjörlega úr lausu lofti gripnar, eins og þm. nefndi hér áðan.

Hins vegar verður það að segjast eins og er, að þessi rótarlegu skrif Morgunblaðsins, sérstaklega um þennan þátt málsins, þ.e. um sölu eignanna og um hugsanlegt veðhæfi þeirra og ýmsar yfirlýsingar forustumanna Flugleiða um sama efni, sem ég hirði ekki um að tína hér til, sýna að greinileg tilhneiging hefur verið fyrir hendi á undanförnum vikum að láta ríkissjóð og skattgreiðendur taka á sig ábyrgð í þessu máli sem kynni að vera langt umfram það sem veð leyfa, — tilhneiging til að knýja á um það, að ríkið taki á sig áhættu, að skattgreiðendur bæti á sig pinklum sem gætu numið allt að 10 milljörðum kr. En það verður ekki.

Það frv., sem liggur fyrir Ed., er við það miðað, að ríkissjóður og þar með skattgreiðendur taki ekki á sig aðra áhættu en þá sem felst í bakábyrgð upp á 3 millj. dollara, sem verður í lánsformi og gert upp að einu ári liðnu. Það er sú upphæð sem jafna má til þeirra tekna sem opinberir aðilar hafa haft af þessu flugi, og því er ekki hægt að segja að með því séu skattgreiðendur eða ríkið að taka á sig miklar fórnir. Að sjálfsögðu yrði þetta fé glatað ef Atlantsflugið félli niður.

Staða þessa máls nú er bersýnilega sú, að stjórnendur Flugleiða eiga næsta leikinn. Það eru þeir sem verða að svara til um hvort þeir ætla að taka þessa áhættu, sem fólgin er í Atlantshafsfluginu, eða ekki. Ég vil ítreka hér það sem ég hef áður sagt í fréttatilkynningu sem ég sendi út um þetta mál, að treysti forusta Flugleiða sér ekki til að taka ábyrgð á þessu Atlantshafsflugi án þess að velta áhættunni yfir á ríkissjóð umfram það sem felst í samþykkt ríkisstj. frá 16. sept. s.l., þá er alveg ljóst að ekki er grundvöllur til að halda þessu flugi áfram.

Hæstv. samgrh. gerði ríkisstj. grein fyrir því í morgun, að forustumenn Flugleiða hefðu komið að máli við sig og tónninn í málflutningi þeirra hefði verið dapurlegri og dekkri en áður, þeir teldu horfurnar ískyggilegri en áður hefði verið talið, tapið yrði líklega enn meira en menn hefðu búist við, áhættan enn meiri. Þetta eru vondar fréttir og berast kannske nákvæmari upplýsingar um hvað hér er á ferðinni og að hvaða leyti viðhorf eru að breytast þessa dagana. En ef þessar seinustu fréttir af áformum og útreikningum forustumanna Flugleiða fela það í sér, að til þess að halda þessu áhættuflugi yfir Atlantshafið áfram verði að gera enn frekari kröfur til íslenskra skattgreiðenda en þegar hafa komið fram, þá er alveg ljóst, að ríkisstj. verður að segja við félagið fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda: Hingað og ekki lengra.