25.11.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

55. mál, opinber stefna í áfengismálum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Sem betur fer þekki ég ekki viðhorf unglinga sem hafa líkt viðhorf og síðasti hv. ræðumaður var að greina frá. Ég þekki það ekki sem betur fer. En ég þakka 1. flm. fyrir þessa till. og fyrir hans orð, þó ég hafi samt sem áður ýmislegt við sum atriðin að athuga. Það er annað mál.

Ég held að afskiptaleysi Alþingis í þessu mikla vandamáli sé í raun og veru varla skýranlegt eins og ástandið er í landinu. Þetta snertir, held ég, flestar fjölskyldur að meira eða minna leyti. Og eins og hefur komið hér fram er þetta mál svo erfitt að meira að segja ýmsir læknar og sálfræðingar standa ráðalausir eða ráðalitlir frammi fyrir þessum vanda. Ég held að það sé eina leiðin að reyna að skapa annað almenningsálit en er í landinu í sambandi við þessi mál og það þurfi að beita miklu meiri fræðslu.

Ég hef stundum, bæði hér í Reykjavík og á Akureyri, athugað ástandið 17. júní í þessum efnum. Mig hryllir við tilhugsuninni að rifja upp það sem bar fyrir augu á þessum kvöldum, bæði hér og þar, þar sem unglingar og börn allt ofan í tólf ára aldur veltust um undir áhrifum áfengis. Hvað er að?

Ég held að það sé fyrst og fremst að þessir unglingar eru í hóp, lenda saman í hóp og menn draga oft dám af sínum sessunaut. Það kann að vera að hinn langi vinnudagur verði að einhverju leyti til þess, þessir unglingar, þessi börn hafi losað fjölskyldutengslin og hafi leitað annars félagsskapar, sem er svo þessi þegar á götuna er komið.

Það er auðvitað alveg rétt, að lífið úti í dreifbýlinu er á annan veg. Það er sjálfsagt fyrst og fremst skýringin á því, að það eru færri, þó eru þeir nógu margir, sem hafa orðið þar áfenginu að bráð. Þó er ekki vandi í sjálfu sér að ná í áfengi hvar sem er ef menn vilja.

Ég held að þessi stofnun eigi að taka alvarlega til íhugunar hvaða hlut hún getur átt í því að hafa áhrif á almenningsálitið. Við, sem erum kallaðir ofstækismenn af því við brögðum ekki áfengi, megum ekki láta það aftra okkur frá að hafa meiri afskipti af þessum málum en bæði ég og ýmsir aðrir höfum gert um langt skeið. Ég held við komumst ekki hjá því að sinna þessu máli eins og ýmsum öðrum, því þetta er ekki minnsta vandamálið. Ég held að þessi mál séu að verða versta og mesta vandamálið í landi okkar.

Ég ætla ekki að tala lengi. Hér eru margir búnir að tala og það er óþarfi að halda langa ræðu um þetta mál. Ég hefði þó haldið að betra hefði verið að sett hefði verið einhvers konar nefnd, kosnir einhverjir á þinginu eða tilnefndir til að koma fram með till. til stefnumörkunar í þessum málum.

Eitt er það sem ég get ekki látið hjá líða að minnast á, sem kom fram hjá frsm. þegar hann sagði að það væri skertur gróflega persónuréttur áfengisneytenda með áfengisbanni. En hver er þá réttur hinna? Hver er réttur hinna sem verða að þola áfengisneyslu á heimilum sínum, kannske dag eftir dag eða langtímum saman? Þarf ekki fyrst og fremst, a.m.k. ekki síður, að líta á þann rétt? Ég er ekki með þeim orðum að mæla með því, að við setjum áfengisbann. Hins vegar held ég að reynslan hafi sýnt að eftir því sem er erfiðara að ná í áfenga drykki sé drukkið minna, eftir því sem það sé auðveldara sé drukkið meira. Þetta er út af fyrir sig lærdómur ef menn eru sammála því að reynsla sé fyrir þessu.

Það má alveg segja það, ég tek undir það, að það er alveg furðulegt að það skuli hafa verið ýtt undir eða gert mögulegt heimabrugg í, stórum stíl með því að leyfa innflutning á ýmiss konar bruggefnum. Það er eitt af því sem við þurfum að athuga hvernig á að fara með og hvort er ekki einfalt mál að banna slíkan innflutning. Þó að bæði mér og öðrum sé ekkert um boð eða bönn á það stundum við og ekki um annað að ræða.

Ég vona að þessi þáltill. verði til að vekja athygli meira á því vandamáli sem áfengisneysla og neysla ýmissa lyfja og vímugjafa hefur í för með sér, og að Alþ. manni sig upp og reyni að taka á þessu vandamáli föstum tökum, jafnvel fremur en öðrum.