25.11.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

55. mál, opinber stefna í áfengismálum

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. — 1. flm. hennar, hv. 6. þm. Norðurl. e., gerði ítarlega grein fyrir ástandi þessara mála og reyndar fleiri hv. þm. sem hér hafa talað.

Ég er sjálf lítið fyrir að halda langar ræður og sé ekki ástæðu til að gera það frekar nú. Það hefur margt athyglisvert komið fram í þessum umr. og áreiðanlega er þar ekkert ofsagt. Það hefur verið minnst á að hugarfarsbreytingar væri þörf. Það er alveg rétt, að hugarfarsbreyting hefur sem betur fer átt sér stað undanfarið og fer vaxandi. Ég held að flestir hafi orðið varir við það. Það er fyrst og fremst að þakka þeim mönnum sem hafa farið í meðferð vegna áfengisvandamála. Þetta er ekki lengur feimnismál hjá þeim. Þeir eru ekki lengur í felum, heldur koma þeir fram sjálfir og leggja sitt af mörkum við að upplýsa aðra, t.d. í skólunum. Þeir fara inn í skólana og tala þar um sín áfengisvandamál. Slík fræðsla er áreiðanlega mikils virði og til mikils gagns. En hvaða leiðir á að fara í þessum efnum og hver er árangursríkust? Ég er ekki tilbúin að tjá mig um það nú. En eitt er víst, að fræðsla og aftur fræðsla er mikils virði. Það verður að skoða þetta mál vel og hafa samráð við þá sem best þekkja til og þá ætti ekki að ganga fram hjá þeim sem eru reynslunni ríkari.

Ég vil ítreka stuðning minn í þessu máli. Ég tel það hvorki einkamál Alþfl. né flokkspólitískt mál. Áfengisvandamálið er ekki íslenskt fyrirbæri og ég stórefa að lausnin felist í Karli Marx eða fræðum hans, eins og hv. 8. landsk. var aðeins að ýja að áðan. Þetta er vissulega alvarlegt þjóðfélagsvandamál. Ég tek undir það með flm. till., að áfengisvandi Íslendinga er orðinn svo alvarlegur að stjórnvöld geta ekki látið hann afskiptalausan.