26.11.1980
Efri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

109. mál, aflatryggingasjóður grásleppuveiðimanna

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Grásleppuveiði var lengst af allveruleg hlunnindi í mörgum landshlutum, en er nú orðin verulegur atvinnuvegur. Ég er á því að við eigum að veita grásleppuveiðimönnum og þeim, sem þennan atvinnuveg stunda, eins mikið öryggi og kostur er og skapa þeim allar þær tryggingar sem hægt er, en aftur á móti verður mér hugsað við fyrsta yfirlestur þessa frv. hvort þessi sjóður ætti ekki betur heima í hinum almenna aflatryggingasjóði og þá sem deild í honum. Það kemur fram í grg. að þar séu fyrir menn sem best þekkja og hafi mesta reynslu og þekkingu í meðferð þessara mála. Eins er hitt, að ef þetta væri slík deild eða hluti af almenna sjóðnum væri þessum mönnum í sjálfu sér veitt meira öryggi en annars verður, ef þetta verður lítill og veikur sjóður. Eins er hins að gæta, hvort ekki er nú verið að stíga skref sem hefur annað og meira í för með sér. Fleiri menn geta farið fram á að hinum almenna aflatryggingasjóði verði skipt upp á milli hinna ýmsu veiðigreina. Detta mér þá t.d. fyrst í hug rækjuveiðisjómenn. Þeir hafa mjög mikla sérstöðu og ekki óeðlilegt að þeir gerðu kröfu um slíkt. Mér hefði ekki þótt óeðlilegt t.d. á sínum tíma að loðnusjómenn, þegar þeir nutu sem bestra kjara, og loðnuútgerðarmenn hefðu viljað stofna eigin sjóð og skapa sér þar ýmsa hagsmuni umfram það sem aðrir höfðu á þeim tíma og kæmu til með að hafa. Auðvitað hlýtur að verða rætt ítarlega í n. hvað rétt er í þessum efnum. Mér finnst ákaflega mikil spurning hvort hér er verið að stíga rétt skref og þess vegna þurfi n. að taka þetta til verulegrar athugunar og yfirvegunar. Að öðru leyti er ég algjörlega fylgjandi því, að við reynum að skapa þessum hóp manna allt það öryggi og allar þær tryggingar sem frekast er kostur.

Eins er um frv. um útflutningsgjaldið. Mér finnst að þar þurfi að gæta vel að. Þarna er allverulega brugðið út af þeirri skiptingu, sem er á hinu almenna útflutningsgjaldi, og t.d. tekið sérstaklega 20% til félagsmálastarfsemi og 10% til rekstrar birgðastöðvar. Þetta eru nýmæli við útflutningsgjöld og þetta þurfum við að athuga vandlega í nefnd. En að öðru leyti er ég sammála því, að þessum hóp manna verði sköpuð öll bestu skilyrði sem kostur er á.