26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði hér. Ég býst við að það sé rétt hjá honum, að ýmsir þm. hafi ekki áttað sig á því, hver framkvæmd þessarar lagagreinar yrði, og hafi þess vegna að vanhugsuðu máli greitt atkv. með skattalögunum eins og þau eru nú. Ég hefði þess vegna viljað beina því til hv. 3. þm. Austurl., formanns fjh.- og viðskn. að hann hraðaði afgreiðslu þessa máls úr n. og einnig þeirra tveggja frv. annarra sem lögð hafa verið fram um breytingar á skattalögunum og hjá n. liggja, til þess að hægt verði að afgreiða þau frv. fyrir jól. Þar á ég við frv. um barnaskattana í fyrsta lagi og í öðru lagi frv. um rýmkun á vaxtafrádrætti, sem við lögðum fram, ég og hv. 6. þm. Reykv.

Það er rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að umrætt ákvæði tekur ekki tillit til afkomu manna. Menn geta þannig orðið að standa skil á háum sköttum jafnvel þótt um engar tekjur sé að ræða til að standa undir þeim og þeir geti þess vegna ekki staðið í skilum með skattana nema með því að taka lán fyrir þeim. Það hefur í slíkum tilfellum aldrei verið neinum tekjum til að dreifa þó svo ríkisvaldið skattleggi ímyndaðar tekjur, tilbúnar tekjur sem aldrei voru til.

Ég geri mér grein fyrir að þessi framkvæmd skattalaganna er afleiðing af harðri gagnrýni sem kom fram á sínum tíma. Hún er sprottin af því, að þeir menn, sem ferðinni réðu, hafa dregið rangar ályktanir af þeirri gagnrýni. Þess vegna eru lögin svona úr garði gerð.

Út af þeim einhliða málflutningi, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hafði hér í frammi, vil ég minna á að þessi lagagrein tekur til margra annarra en bænda; trillusjómanna, vörubifreiðastjóra, leigubifreiðastjóra, manna sem eru með sjálfstæðan atvinnurekstur, iðnaðarmanna, kaupmanna og ýmissa annarra, jafnvel lögfræðinga, — hæstv, fjmrh. er í þeirra hópi. Það eru því ekki bara bændur sem um er að ræða. Nú er mér kunnugt um að fram fer sérstök athugun á hvernig þessi ákvæði koma við bændastéttina. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort sérstök athugun hafi verið gerð á því, hvernig þetta ákvæði tekur til harðindasvæðanna fyrir norðan í öðrum atvinnurekstri, eins og t.d. í trillubátaútgerð, og spyrja hann að því, hvenær niðurstöðu sé að vænta. Ég vil jafnframt minna á að skattlagning verður að vera almenn. Það er ekki hægt að fara þar í manngreinarálit, heldur verður skattlagningin að koma jafnt við alla borgara landsins. Ekki dugir að mismuna mönnum í þeim efnum. Ég vil sem sagt spyrja: Hvenær má vænta þess, að niðurstöður liggi fyrir úr þeirri sérstöku athugun sem gerð hefur verið á framkvæmd þessa ákvæðis? Hvenær geta alþm. vænst þess að fá skýrslu um það mál og hversu víðtæk er sú athugun?