26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í tilefni af umr., sem orðið hafa um þetta mál, og bollaleggingum manna í þessu sambandi finnst mér tilhlýðilegt að minna á hvernig skattálagning fer fram hér á landi. Ég vænti þess, að flestir hv. alþm. geri sér grein fyrir því, að fjmrn. og fjmrh. leggja ekki á skatta hér á landi, heldur eru skattar lagðir á samkv. lögum frá Alþingi, af ríkisskattstjóra og skattstofunum. Fjmrn. hefur ekki ákvörðunarvald um hvernig þessi skattálagning fer fram eða hvort einhverjar leiðréttingar eru gerðar hjá einstökum hópum manna, heldur verður í öllum tilvikum að fara að lögum af hálfu þeirra stofnana sem með þetta fara. Aftur á móti hefur fjmrn. eftirlit með því, að skattálagning fari fram að lögum, og sérstaklega ber því að fylgjast með hvernig skattálagningin almennt kemur út þannig að unnt sé að gera þá tillögu um breytingar á lögunum eða aðrar leiðréttingar sem horfa til meiri sanngirni.

Strax og í ljós kom að m.a. bændasamtökin og einstakir bændur kvörtuðu yfir því, að álagning á bændur hefði verið ósanngjörn og óeðlileg í ýmsum tilvikum, var ákvörðun tekin um að skipa sérstaka nefnd, sem m.a. eru í tveir bændur sem átti að gera sérstaka úttekt á þessari álagningu. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram, að æskilegt hefði verið að þessi nefnd hefði þegar skilað af sér. Ég hef rætt þetta mál oftar en einu sinni við ríkisskattstjóra, sem er formaður nefndarinnar, og ég vænti þess, að nefndin skili af sér innan tíðar. En ég get ekki vefengt það, sem sagt er í þessu sambandi, að um gífurlegt verkefni sé að ræða að kanna, hvernig þessi álagning hefur farið fram, og gera úttekt á því, hvort mismunur hefur verið á álagningu í einstökum skattumdæmum, eins og þessari nefnd var sérstaklega ætlað að athuga, og að draga fram ósanngjörn dæmi og hversu atgeng þau væru og hvort þar væri um mismunandi meðhöndlun að ræða o.s.frv. Ég held að það geti enginn neitað því, að þetta er gífurlega mikið verkefni. Þar sem það bætist nú við, að ríkisskattstjóri var frá vinnu um skeið, þá hefur ekki fengist niðurstaða, enda skilst mér að lengstum hafi verið beðið eftir útkeyrslu þeirra upplýsinga úr tölvum sem þörf var á í þessu sambandi. Ég hef því ekki talið neinn möguleika til að taka þetta mál upp til sérstakrar umræðu í fjmrn. eða ríkisstj. eða með þeim aðilum sem hér eru í samstarfi. Ég hef talið augljóst að við hlytum að bíða eftir niðurstöðum þessarar nefndar. Þegar niðurstaða er fengin er sjálfsagt að taka tillit til hennar við undirbúning breytinga á skattalögunum þannig að álagning á næsta ári yrði ekki með þessum annmörkum.

Hvað snertir bersýnilega ósanngirni við álagningu á s.l. sumri, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, nefndi áðan, verðum við að vænta þess, að í slíkum tilvikum hafi álagningin verið kærð og sé tekin til sérstakrar meðferðar af ríkisskattstjóra eða ríkisskattanefnd. Ég tel einsýnt að þeir gjaldendur, sem telja sig eiga um sárt að binda vegna þess að álagning hafi verið af einhverjum ástæðum sérstaklega ósanngjörn, hljóti að kæra álagninguna eða hljóti að hafa kært álagninguna og að málið sé tekið til sérstakrar meðferðar í framhaldi af því. En ég býst við að það sé ákaflega erfitt við það að eiga að setja almennar reglur núna undir áramót sem breyti þeirri álagningu sem fram fór í sumar. Ég býst við að þar sé ákaflega erfitt um vik. Það mundi þýða að það yrði að leggja á upp á nýtt á stórum svæðum, sem ég tel nánast útilokað úr því sem komið er. En þetta mun allt skýrast betur þegar niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir.

Hv. þm. Halldór Blöndal, 7. landsk. þm., spurði að því, hvort fram hefði farið athugun á öðrum sviðum hliðstæð þeirri athugun sem gildir um bændur. Ég hlýt að svara þessari spurningu neitandi. Þess hefur ekki verið óskað, að slík rannsókn færi fram, og hún hefur ekki verið gerð. Hins vegar var skipuð, eins og um var talað s.l. vetur, sérstök nefnd með fulltrúum tilnefndum af þingflokkunum, og í þeirri nefnd áttu menn kost á og eiga kost á að koma fram sérstökum óskum um athugun eða úttekt á einstökum atriðum. Mér er ekki kunnugt um að slík ósk hafi komið þar fram. Ef fram kæmi sérstök ósk af þessu tagi er auðvitað vel hugsanlegt að gera slíka úttekt, en ég tek það fram, að rannsóknir og úttektir af þessu tagi eru geipilega dýrar og auðvitað verða að vera einhver takmörk fyrir því, hvað við stöndum í miklum stórræðum í þeim efnum.

Ég vil minna á í þessu sambandi, að ákvæði um heimildir ríkisskattstjóra til að áætla mönnum tekjur, ef sérstök ástæða þykir til, eru komin inn í skattalög vegna mikillar gagnrýni sem uppi var á gildandi skattalögum.

Ég held að þm. úr öllum flokkum hafi sameinast um að gera kröfu til þess, að ýmsum einstaklingum, sem hafa augljóslega og bersýnilega miklar tekjur, en hafa hins vegar tök á því að gefa upp til skatts það sem þeim sýnist, yrði ekki sleppt eins auðveldlega og verið hefur. Ég tel því fráleitt að fara ári síðar að fella niður öll ákvæði af þessu tagi úr skattalögum. Það má hins vegar vel vera að það þurfi að gera sérstakar ráðstafanir varðandi þá hópa sem er hægt að hafa eftirlit með með öðrum hætti. Það er hægt að fylgjast býsna vel með tekjum bænda í gegnum söluaðila landbúnaðarins, og það er mjög óeðlilegt að ætla mönnum háar tekjur þegar oft er kannske um að ræða verst settu þjóðfélagsþegnana. Og ég verð að taka undir það sem kom fram í umr. hér í gær um sama mál, þegar ég svaraði fsp. um þetta efni einmitt frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að manni finnst einkennilega lítill munur á þeim tekjum, sem áætlaðar eru á bændur annars vegar og svo hins vegar t.d. á lögfræðinga, tannlækna eða sérmenntaða menn ýmiss konar. Ég verð að segja að mér finnst munurinn furðulítill og óttast að ekki hafi verið um hárnákvæmt mat að ræða.

Ég vil að lokum segja það eitt, að ég hef gert ráð fyrir að bíða eftir niðurstöðum þeirra nefnda sem sérstaklega hafa unnið að þessum málum. Það gildir bæði um bændurna og einnig um einstæðu foreldrana. Ég geri ekki ráð fyrir að þessi mál verði til lykta leidd fyrir áramót. Ég geri mér í hæsta lagi vonir um að unnt yrði að koma saman frv. um breytingar á tekjuskattslöggjöfinni og það yrði þá til umræðu meðal stuðningsmanna ríkisstj. og hugsanlega yrði það lagt fyrir Alþ. fyrir jól. Þó er það ekki öruggt. Áreiðanlega yrði það ekki afgreitt fyrr en á næsta ári.

Vissulega væri æskilegt að búið væri að koma þessum málum öllum á hreint fyrir nýár, en því miður sýnist mér að við séum enn að velkjast með þau vandamál sem stafa af gerbreyttu skattakerfi. Það tekur sinn tíma. Það tók sinn tíma að leggja á. Við vorum seinir með álagninguna vegna þess hversu seint lögin voru afgreidd í vor, og við verðum seinir með þær úttektir og rannsóknir sem gera þarf í kjölfar hinnar nýju álagningar. Þar af leiðandi verðum við líka seinir að undirbúa frv. um breytingar á skattalögunum þannig að þess er alls ekki að vænta að þessi mál verði komin á hreint fyrir nýár.