26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. um frv. á þskj. 71 um breytingu á skattalögunum, að fjmrh. hefur skipað nefnd til að endurskoða áhrif þess atriðis sem hér er rætt um og frv. fjallar um. Hæstv. fjmrh. gat þess áðan að það væri gífurlegt verk að kanna þau áhrif, hvernig þessi álagning hefði farið fram og hvaða afleiðingar hún hefði haft, og hann lauk máli sínu á þá leið að telja eðlilegt og sjálfsagt að við hlytum að bíða eftir niðurstöðu þessarar nefndar án þess að nokkuð væri aðhafst í málinu annað.

Hann gat þess, að það tæki tíma að kanna áhrif hinna nýju skattalaga og gera á þeim heildarbreytingar, og ég get vel fallist á að það sé rétt. En ég vil taka undir það, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði áðan í umr., að það eru óeðlileg rólegheit í því nefndarstarfi sem sett hefur verið í gang til að kanna þetta sérstaka ákvæði laganna vegna þess hvað það grípur hastarlega inn í hjá mörgum þeim manninum sem ekki er þess umkominn að bera af sér þær álögur sem á hann eru lagðar.

Ég vil geta um eitt dæmi sem ég hef um bónda sem er nú 75 ára gamall. Konan hans er sextug. Þau stunda lítinn búskap á jörð sinni. Þau kaupa ekki vinnukraft. Hann fær ellilífeyri, en hann hefur ekki enn tekið lífeyri úr Lífeyrissjóði bænda. Hjónin vinna, eins og ég sagði áðan, ein við búið, hafa þar af leiðandi lítinn rekstrarkostnað og þau eru skuldlaus. Bústofninn, sem var á búi þeirra 1979, var 5 kýr, en af því, eins og geta má nærri, að þau eru farin að vinna heldur hægar en áður ákváðu þau að fella þessar kýr haustið 1979 og hætta við kúabúskap. Þau höfðu áður 100 ær og hafa haldið þeim áfram. Tekjur umfram það, sem þetta bú gefur og niðurskurður á bústofninum að nokkru leyti, höfðu þau ekki.

Þegar þessi bóndi fór að gera upp búið sitt og gera sína skattskýrslu stóðu hjónin svo, að þegar reksturinn var settur í jafnvægi og rekstrarafgangurinn settur inn á persónuskýrsluna og þær tekjur sem hann hafði af sínum ellilífeyri, þá voru tekjurnar 2 358 908 kr. Skattstjórinn var hins vegar skyldugur til þess samkv. lögum að breyta þessu framtali til hækkunar. Hann bætti við tekjur þeirra rúmlega 1 millj. kr., sem að viðbættri tekjufærslu vegna endurmats eigna leiddi til rekstrartaps um 1 844 889 kr., sem var yfirfært til næsta árs. Þessi hjón, sem sannanlega höfðu ekki nema tæpar 2.4 millj. í tekjur, mega nú greiða í tekjuskatt 1 382 789 kr. og til sveitarfélagsins 786 660 kr. eða samtals 2 169 449 kr.

Mér sýnist að í ljósi þessa tilviks megi álykta að Alþ. hafi fatast alvarlega lagasetningin. Það eru mistök Alþingis að fá embættismönnum í hendur slíkar reglur að fara eftir að þær leiði til jafnaugljóss misréttis og átti sér stað í því tilviki sem ég var að greina frá. Og ég verð að segja að mér finnst það vera of mikil værð að bíða eftir niðurstöðum nefndar, sem sýnilega ætlar sér að vinna verkið hægt, áður en leiðrétt eru mistök eins og þau sem hér er greint frá og ég veit að eru til mýmörg áþekk. Margir þeirra bænda, sem þetta kemur verst við, eru vanir því frá sínum fyrstu afskiptum af fjármálum og fjárhagslegri ábyrgð að standa skil á þeim gjöldum sem þeim eru lögð á herðar, og ég veit að þá langar ekki til að sofna þannig úr þessari veröld að þeir hafi neitað að greiða réttmæt gjöld. Það leggur okkur enn þá þyngri skyldur á herðar að leiðrétta þetta fyrir þá sök en annars hefði verið.

Ég á von á því að hinn mikli baráttumaður fyrir rétti alþýðunnar, hv. þm. Ágúst Einarsson, sem tók afstöðu gegn frv. við þessa umr., telji að hér sé um einangrað dæmi að ræða. En ég staðhæfi að svo er ekki. Enn hefur ekki fengist á því könnun hversu margar breytingar og hversu stórar þær eru sem skattstjórar hafa gert, en áhugi manna á því að koma fram breytingum á þessum ákvæðum skattalaganna tala sínu máli.

Ég hef greint frá því áður við þessa umr. að um 2000 bændur hafa sent ríkisstj. áskorun um að breyta þessu ákvæði skattalaganna, og það er rétt að geta þess, að fyrir stuttu bárust mér úr einni lítilli sveit á Suðurtandi, sem hafði orðið sein fyrir með undirskriftasöfnunina, þessar undirskriftir sem ég er hér með í höndunum og ég hef ekki getað skilað af mér enn þá. Sá hópur vildi þó ekki sitja hjá aðgerðalaus, en þar var um 25 einstaklinga að ræða.

Ég veit að margir þeirra, sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum rangláta skatti, hafa kært þær álögur sem þannig eru ákvarðaðar, þar sem um er að ræða óverjandi óréttlæti og mismunun sem af því leiðir þegar þessum skattaákvæðum er beitt. En ekki er nægilegt að kæra. Ákvæðin verður að nema úr gildi. Skattgreiðendur hafa sýnt það með undirskriftum sínum að þeir telja hér um mikilvægt málefni að ræða. Það brýtur í bága við þá sjálfsögðu reglu að tekjuskattur skuli ekki lagður á ímyndaðar tekjur, heldur sannanlegar og raunverulegar tekjur, og það brýtur í bága við allar venjur í skattamálum að skylda skattstjóra til að setja mönnum tekjur án þess að rök hnígi að því að þær séu vantaldar. Það er því eðlilegt að almennur vilji komi fram um það, að fullkomin leiðrétting fáist á þessu máli, sem næst ekki fram með öðru móti en því, að lögunum verði breytt og sú breyting verði afturvirk þannig að skattar, sem lagðir hafa verið á nú í ár á grundvelli þessa umrædda ákvæðis, verði felldir niður án kæru, eins og ákvæðið til bráðabirgða með þessu frv. ber með sér að ætlast er til.