26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er ekkert nýtt fyrir mér hverjir það eru sem leggja skattana á. Hins vegar er það ekki heldur nýtt fyrir mér, að hæstv. fjmrh. ber skylda til að hafa eftirlit með þessari álagningu, og það er það sem ég tel að á skorti. Í 59. gr. laga um tekju- og eignarskatt segir m.a.:

„Viðmiðunartekjur þeirra, er landbúnað stunda, skulu miðast við launaþátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða, þó að teknu tilliti til aðstæðna hverju sinni, svo sem ef bóndi nær ekki heildartekjum grundvallarbúsins vegna afurðaverðs, árferðis eða annarra atriða er máli skipta að mati ríkisskattstjóra.“

Nú liggur það fyrir, að ríkisskattstjóri gaf þau fyrirmæli, að ekki yrði farið eftir árferðinu, þ.e. metinn aukinn tilkostnaður vegna harðærisins. En ég tel að þessi lagafyrirmæli kveði alveg skýrt á um að það skuli gert. Það þarf ekki að bíða eftir nefnd í sambandi við þetta atriði. Þetta er framkvæmdaatriði sem á að fara eftir lögum, en fyrir liggur að svo var ekki gert. Þegar farið var að ræða um þessi mál á vegum Stéttarsambandsins og þegar hæstv. ráðh. skipaði þessa nefnd, þá álitu bændur að það þyrfti ekki að kæra svona augljós atriði. (Fjmrh.: Hvað var það sem ekki var gert?) Að taka tillit til þess kostnaðarauka sem af árferðinu leiddi. Ég var að lesa upp úr lagagreininni, hæstv. ráðh., sem segir alveg skýlaust til um þetta.

Ég vil endurtaka áskorun mína á hæstv. ráðh. að gefa sér tíma til að greiða úr þessu máli, þó að ýmislegt sé að gera — ég veit það — þessa dagana. Þetta nær engri átt. Það eru ýmsir bændur í Norðurlandskjördæmi vestra sem líklega hafa kosið hæstv. ráðh. Kannske eru þeir ekkert ánægðir við hann ef hann sýnir það, þegar hann er kominn í þennan stól, að hann sé algerlega búinn að gleyma þeim. Mér þykir það ekki líklegt.

Það eru ýmis fleiri atriði sem breyta þarf, en bændur hafa yfirleitt ekki kært, vegna þess að yfirlýsingar voru gefnar um að álagning yrði leiðrétt í þessum æpandi tilvikum. Það er t.d. í sambandi við ákvæðin um eignatilfærslu. Það kemur alveg það sama út í vissum tilvikum. Ég þarf ekki að koma að því frekar, þetta þekkja allir. Á fundi, sem ég var á norður í landi, tók til máls aldraður maður sem er enn þá skráður bóndi. Hann hefur lítinn búrekstur, en af því að hann var skráður bóndi voru honum ákvarðaðar tekjur sem hann ekki hafði, og þar af leiðandi missti hann af tekjutryggingunni. Þetta á auðvitað að lagfæra. Þetta á ekki einu sinni að þurfa að kæra. Og þetta er ekki fyrir það, að lögin séu gölluð að þessu leyti, heldur er framkvæmdin gölluð. Þó að þurfi, a.m.k. að því er bændurna áhrærir, að sjá til þess að láta 59. gr. ekki ná til þeirra, held ég að hægt sé að færa nægileg rök fyrir því, að það eru yfirleitt ekki bændur sem svíkja undan skatti. Ég held að það liggi yfirleitt í flestöllum tilvikum á hreinu um þeirra tekjur. En eins og hæstv. fjmrh. sagði er hrópandi ósamræmi í því, að ætla t.d. læknum, ég tala nú ekki um tannlæknum, 8.1 millj. kr. laun á sama tíma sem bónda eru t.d. ætluð 6 millj. 780 þús. kr. laun. Maður sér að þetta er svo fráleitt misræmi, að það tekur ekki nokkru tali. Ég ætla ekki að nefna þær tekjur sem ég hef heyrt t.d. að læknar hafi, en það eru margfaldar þessar tekjur, og það er enginn vafi á því að þeir hafa þær tekjur.