26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er búið að segja svo margt stórviturlegt í þessari umr. að það er litlu við að bæta. Það stóð aldrei til að skattalögin væru gallalaus. Það var að vísu ákaflega mikil samstaða um setningu þessara skattalaga hér í þinginu á sínum tíma, en þar fyrir stóð aldrei til að þau yrðu eilíf og óumbreytanleg. Og það hefur sjálfsagt aldrei hvarflað að neinum hér að ekki þyrfti í ljósi reynslunnar að skoða aftur eitt og annað í þessum lögum.

Hv. 3. þm. Austurl. ræddi um það áðan í ágætri ræðu sinni, að menn legðu meira upp úr löggjöfinni en reglunum. Það er sannarlega ástæða til að menn séu skýrmæltir í löggjöfinni, svo að ekki sé hægt að teygja hana og toga í framkvæmdinni þannig að allt annað komi út en menn hafa hugsað sér þegar lögin voru sett.

Það er út af fyrir sig ekki rökrétt og þaðan af síður siðlegt að leggja skatta á tekjur sem ekki eru til, — sannanlega eru ekki til. Ég játa það, að ég velti mjög fyrir mér þeirri aðferð sem þarna er viðhöfð við afgreiðslu málsins á sínum tíma, en mér sýndist eftir laganna hljóðan og útskýringum í nál. og hjá frsm. nefnda að þetta mundi vera í lagi, framkvæmdin mundi verða með þeim hætti að við það væri unandi. Ég viðurkenndi að þetta hafði allt saman tilgang, því að það gat þurft að ná í skottið á stöku manni. Það var ekkert mikið um þá í bændastétt, en aðeins kann það að vera til. Það er mjög óþægilegt fyrir bændur að lauma nokkru undan, a.m.k. í hefðbundnum búgreinum. Sölusamtök fylgjast mjög náið með því, hver framleiðsla manna er, og þeir geta lítið farið með hana annað en í gegnum sín sölusamtök. En sá atvinnurekstur kann að vera til, að það sé nauðsynlegt að hafa svigrúm til áætlunar.

Hins vegar datt mér aldrei í hug að þetta ákvæði, þessi lagagrein yrði túlkuð á þann hátt sem raun ber vitni. Og meira en það, hún er ekki alls staðar á landinu túlkuð eins. Það er misræmi í útfærslunni. Í flestum tilfellum er þetta þó í lagi að áætla en þó rekst maður á of mörg óþægileg dæmi, eins og hér hafa verið rifjuð upp í ræðustólnum, — dæmi sem eru á þann veg að ekki verður við það unað að hafa þetta svo til frambúðar.

Það ei mjög áberandi misræmi á milli stétta, eins og hér er búið að margtaka fram. Það er líka mjög áberandi misræmi í því, hvernig hinir einstöku bændur fara út úr þessu, og á sumum getur útreiðin verið alveg hraksmánarleg. Það þarf að skapa eitthvert svigrúm með einhverjum hætti til þess að bjarga mönnum beint frá því að verða gjaldþrota, því að það var aldrei hugsun okkar með þessari grein. Hugsun okkar var að ná í skottið á mönnum sem væru að svíkja undan skatti einhverjar tekjur sem um munaði, en ekki að hundelta menn sem höfðu hér um bil ekkert, búa þeim til tekjur, leggja svo á þá skatt, sem er of hár fyrir þá, og kannske gera þá gjaldþrota eða ofbjóða gjaldþoli þeirra.

Þetta finnst mér að hæstv. fjmrh. ætti að hafa forgöngu um að laga. Það hlýtur að vera einhver leið til þess að koma til móts við menn í svona tilfellum, og ég held að þau séu ekkert ákaflega mörg. En eitthvað af þessu fólki hefur ekki haft hugsun á því eða snarræði til þess að kæra álagningu sína á skikkanlegum tíma og hljóta þannig leiðréttingu. Og það er þaðan af verra, að það kann að vera að þarna sé verið að misbjóða okkar minnstu bræðrum.

Ég held að það hafi verið rétt af hæstv. ráðh. að setja nefnd í málið og athuga þetta á breiðum grundvelli. Og ég sé ekki annað en það sé sjálfsagt að bíða eftir þessari nefnd. Það er líka sjálfsagt af ráðh. að ýta á eftir athugun nefndarinnar þannig að hún liggi fyrir fljótlega. Á grundvelli þeirrar athugunar, sem nefndin gerir, verðum við svo auðvitað að velta því fyrir okkur, hvort ástæða sé til að breyta lögunum eða hvort hugsanlega sé nægilegt að breyta framkvæmd laganna, kippa framkvæmd laganna til þess forms að svona hlutir komi ekki fyrir.

Það eru í reglum, sem settar hafa verið um skattalög, fleiri atriði en hér er getið um, og líka frá gamalli tíð, atriði þar sem hefur verið farið öðruvísi að en við hugsuðum okkur að gert yrði. Kannske höfum við ekki haft nógan skilning á því, hvernig tæknileg vinna yrði. Útkoman hefur sem sagt orðið önnur en við ætluðumst til í sumum tilfellum. Þess vegna held ég að við verðum að doka við eftir nefndinni og á grundvelli þeirrar niðurstöðu, sem hún kemst að, verðum við að sjá hvort ástæða er til að breyta lögunum eða hvort reglugerðarbreyting eða fyrirmæli ráðh. til skattstjóra, ábendingar um hvað við höfum verið að meina, kynnu að duga. En ég vil undirstrika það, að ég held að við megum ekki ganga svo frá þessu máli að álagning fari svona fram aftur.