26.11.1980
Neðri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

112. mál, skráning lífeyrisréttinda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um skráningu lífeyrisréttinda. Frv. sama efnis var lagt fyrir seinasta löggjafarþing, en varð þá ekki útrætt og er frv. endurflutt óbreytt.

Lífeyrissjóðir, viðurkenndir af fjmrn. eða lögbundnir, munu vera nú 95 talsins. Engin heildarskrá er til í landinu um hverjir eiga aðild að þessum sjóðum og því síður er til heildarskrá um réttindi aðila í hinum ýmsu sjóðum, en eins og kunnugt er getur sami maðurinn átt rétt í mörgum sjóðum.

Fjmrn. hefur að undanförnu unnið að því að safna saman efni í skrá um lífeyrisréttindi allra landsmanna. Þýðingarmesta framlagið til slíkrar skrár til þessa hefur komið frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, en sambandið hefur gert nafnaskrár fyrir alla sjóði innan sambandsins. Biðreikningur lífeyrissjóðsiðgjalda, sem er til húsa í fjmrn. eins og kunnugt er, hefur einnig tengst þeirri skrá í samræmi við sérstakt samkomulag sem gert var við Samband almennu lífeyrissjóðanna.

Nafnaskrá sambandsins hefur að geyma 97 þús. nöfn og eru á skránni nöfn manna sem hafa greitt til allt að 7 lífeyrissjóða. Það mun algengt að einn og sami maður eigi aðild að 2–3 sjóðum.

Þegar þess er gætt, að margir og mjög stórir lífeyrissjóðir eiga ekki aðild að Sambandi almennu lífeyrissjóðanna er augljóst mál að aðild einstaklinga að mörgum sjóðum er mun flóknara viðfangsefni en fram kemur í nafnaskránni.

Þetta frv. er flutt til þess að tryggja með lögum greiðan aðgang almennings að upplýsingum um lífeyrissjóðsaðild og til að afla vitneskju um umfang þess tryggingakerfis sem lífeyrissjóðirnir mynda í landinu. Framkvæmd laga, sem sett voru á s.l. vori um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, byggist beinlínis á því, að unnt sé að kanna hvort iðgjöld hafi verið greidd svo sem samningar og lög segja til um.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. fjh.- og viðskn.