27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir efni þessarar till. og vænti þess, að hún fái framgang hér á hinu háa Alþingi nú. Ég vil aðeins skjóta þeirri hugmynd að, sem kom til umræðu í þingflokki Alþfl. þegar þessi till. var rædd þar, hvort ekki mætti víkka út svið þáltill., þ.e. að þessi könnun nái ekki eingöngu til ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana, heldur verði hún einnig gerð í samráði við t.d. Alþýðusamband Íslands um möguleika á sveigjanlegum vinnutíma í atvinnurekstri almennt í landinu. Þætti mér vel koma til greina að þessi könnun, ef hún verður að veruleika, verði nokkuð ítarleg og þess vegna sé ekki fráleitt að hugsa sér að víkka út talsvert svið þáltill. þannig að það næði einnig til þeirra, sem aðild eiga að Alþýðusambandi Íslands, og þeirra fyrirtækja sem auðvitað eru fjölmennust í landinu og eru í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar.

Ég vildi aðeins skjóta þessu að flm. till. vegna þess að ég tel að með þessu móti mætti gera till. mun virkari en hún er eins og hún liggur hér fyrir.