27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég fylli þann flokk sem lýsir ánægju sinni með þessa till. Ég geri það heils hugar.

Ég vil taka undir það, að í tengslum við sveigjanlegan vinnutíma mætti vissulega auka opinbera þjónustu án þess að það hefði aukinn kostnað í för með sér. Jafnframt gæti opinbera þjónustu verið að fá á hinum ýmsu tímum dags, sem er ekki nú á tímum, til þess að þeir, sem opinberu þjónustunnar þurfa að njóta, hinir ýmsu aðilar, eigi þess frekar kost í mörgum tilfellum en nú er.

Enda þótt þessi till. geri ekki ráð fyrir, eins og skýrt hefur verið úr þessum ræðustól, að ná til fleiri þátta en opinberrar þjónustu, þá vil ég taka undir það, sem raunar hefur komið hér fram, að sveigjanlegum vinnutíma þyrfti að koma við miklu víðar í atvinnulífinu. Ég er persónulega sannfærður um að slík tilhögun ylli meiri ánægju og meiri afköstum í atvinnulífinu. Jafnframt væri þetta hugsanleg leið til þess að draga úr spennu sem er tengd hinu mikla kapphlaupi við klukkuna dag hvern.

Að síðustu: Væri þetta ekki ágætt innlegg inn í þá miklu umræðu sem nú fer fram vegna fjölskyldunnar og þess, að við lítum öll svo á að hún sé hornsteinn þessa þjóðfélags? Er þetta ekki e.t.v. einn af stærri þáttum þess máls að treysta fjölskylduböndin, gera fólki frekar kleift að sinna einkahögum, sem í flestum tilfellum eru nátengdir fjölskyldunni sjálfri?