27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. tók það skýrt fram, að hún ætlaði að vera jákvæð í þessu máli, og satt best að segja var ég glaður yfir því, eftir að hafa hlustað á ræðu hennar, að hún skyldi ekki vera neikvæð. En hvað um það, þessi þáltill. vekur mann til umhugsunar um það, við hvað sé raunverulega átt. Það stendur neðarlega á fyrri bls., að sveigjanlegur vinnutími hafi nánast hafist að frumkvæði Skeljungs 1974. Ég veit ekki betur en það hafi verið sveigjanlegur vinnutími í þessu landi frá landnámsöld. (MB: Þá hefur Skeljungur ekki verið til.) Þá hefur Skeljungur ekki verið til, segir hv. 1. þm. Vestf. — En þá vaknar þessi stóra spurning: Sveigjanlegur vinnutími í þessu landi hefur verið á þann veg, að menn hafa sveigt vinnutíma sinn að þörfum atvinnuveganna og að þörfum þeirra stofnana sem þeir hafa verið að vinna fyrir. Nú skilst mér að hugmyndin sé að snúa þessu við, það eigi ekki að sveigja vinnutímann að þörfum stofnananna, heldur að þörfum einstaklinganna sem vinna við þessar stofnanir. Við höfum stundum séð þetta til sveita á ríkisbúum, menn hafa unnið sínar 8 klst. og svo hefur ekki verið litið til verka hinn tímann. Oft hefur þetta komið dálítið skoplega út.

Ég hef aftur á móti ekkert við það að athuga, að ríkisfyrirtæki hafi fullt frelsi með hvort þau ráða starfsmenn í hálfs dags vinnu eða ráða þá til að hefja vinnu kl. 9 eða kl. 8 á morgnana. Mér er ekki einu sinni ljóst hvort það er bannað. Ég veit ekki annað en að innan fjölmargra ríkisstofnana sé sveigjanlegur vinnutími. Hvað með sjúkrahúsin? Hvað með skólana? Hvað með strætisvagna Reykjavíkur? Er ekki sveigjanlegur vinnutími hjá þessum stofnunum?

Spurningin í þessu sambandi hlýtur fyrst og fremst að snúast um eitt atriði, ef ég hef skilið það rétt sem hér er sett fram, þ.e. hvort hægt sé að vinna 40 stunda dagvinnu fyrir utan hin venjulegu dagvinnumörk. Er það ekki það sem verið er að tala um? Mér sýnist á einum hv. flm. að ég hafi hitt naglann á höfuðið, þetta sé umræðuefnið.

Þá vaknar fyrst sú spurning, hvort á bak við þessa till. búi ekki raunverulega að líka sé verið að leggja til að mismunur á launagreiðslum, eftir því hvort verkið sé unnið í dagvinnutíma, eftirvinnutíma eða næturvinnutíma, eigi að minnka. Það hlýtur að vera rökrétt. Ef atvinnurekandinn biður manninn að vinna verkið fyrir utan hinn venjulega dagvinnutíma á hann að borga eftirvinnu- eða næturvinnukaup, en ef sá sem er að leita eftir vinnunni biður aftur á móti um að fá að vinna fyrir utan hinn venjulega dagvinnutíma verði borgað dagvinnukaup.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það sé allt of mikill launamunur á dagvinnu og eftirvinnu, og ég held að þetta kerfi hafi beinlínis stuðlað að því, að við vinnum miklu lengri vinnudag en skynsamlegt er talið samkvæmt öllum vinnurannsóknum sem framkvæmdar hafa verið. En aftur á móti sýnist mér að það gæti verið hagkvæmt hjá hjónum sem vinna úti, að þau ynnu ekki bæði á sama tíma utan heimilisins. E.t.v. er það hluti af þeirri fjölskyldupólitík sem rétt er að tala um.

En þessi till., þó samþykkt yrði, breytir engu um að það hlýtur fyrst og fremst að verða í kjarasamningum sem svona mál eru tekin upp og þau verða trúlega varla tekin þar upp nema fyrir frumkvæði launþegahreyfingarinnar.