27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þakka þær undirtektir, sem þetta mál hefur hlotið í hv. Sþ., og enn fremur þakka þær ábendingar, sem komið hafa fram í þessum umræðum.

Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Austurl. benti á, að með þessu móti og reyndar öðrum skyldum aðferðum má koma til móts við þá sem að einhverju leyti hafa skerta starfsorku. Að vísu blandast þar saman við önnur mál enn fremur, sem ég hygg að ástæðulaust sé að rekja, en get fyrir þá, sem nefndu þá bók sem er nýkomin út og gefin er út af Hvöt og Landssambandi sjálfstæðiskvenna, bent mönnum á að þar er lesning um þessi efni þannig að það er óþarfi að fjölyrða um þau á þessu stigi málsins. (StJ: Enga bóksölu hér í þingsölum.)

Það kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að það væri eðlilegt að færa þessa till. út þannig að hún næði jafnframt til Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambands Íslands. Auðvitað hafa þeir við slíka könnun að gera. Ég held að hér verði ég aðeins að staldra við vegna þess að hér er komið að atriði sem reyndar nokkrir hv. þm. ræddu, hvaða áhrif þetta hefur á kjarasamninga, hvaða áhrif hefur þetta á afstöðu verkalýðsfélaganna. Við skulum ekki ganga þess dulin, að auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég kannast við að í Bretlandi t.d. hafi könnun farið fram innan verkalýðshreyfingarinnar sem leiddi í ljós ýmislegt sem getur einmitt varpað ljósi á afstöðu hennar víðar en á Bretlandseyjum. Það var Stjórnunarstofnun Bretlands sem á árinu 1973 gekkst fyrir rækilegri skoðanakönnun um sveigjanlegan vinnutíma og í niðurstöðum þeirrar könnunar er greint frá viðhorfum launþegasamtaka til þessara nýmæla. Í örfáum atriðum má segja að niðurstöður hafi verið eftirfarandi:

1. Fram kom í þessari könnun að launþegar töldu að stjórnendur fyrirtækja gætu reynt að lengja vinnutíma starfsmanna þegar mörg verkefni lægju fyrir, en beint síðan frítíma starfsmanna að verkefnasnauðari tímabili. Með fortölum og aðhaldi gætu stjórnendur fyrirtækja dregið úr yfirvinnu og farið þannig á bak við kjarasamninga.

2. Þá krefjast launþegasamtökin þess, að félagar þeirra njóti ágóðans sem meiri framleiðni og minni fjarvistir skila í fyrirtækinu.

3. Þá gjalda verkalýðsleiðtogar varhug við sveigjanlegum vinnutíma vegna þess að hann getur raskað grundvellinum undir 8 tíma vinnudeginum, sem er árangur áratugalangrar baráttu verkalýðssamtakanna.

4. Þá er minnst á það í þessari skýrslu, að sveigjanlegur vinnutími dragi úr samstöðu starfsmanna, enda fækki samverustundum í vinnutímanum.

Það ber að líta á að bresku verkalýðssamtökin eru talin ákaflega íhaldssöm í þessum efnum, þ.e. í afstöðunni til breytinga á vinnutímanum, eins og mörg dæmi eru um. Hins vegar eru alþýðusamböndin á Norðurlöndum á allt annarri skoðun. Það var t.d. fyrir frumkvæði alþýðusambandsins sænska gert átak í þessum málum í Svíþjóð. Þar var það alþýðusambandið sem hafði forgöngu um málið. Það er rétt, sem hér kom fram, að á vettvangi Norðurlandaráðs hefur einnig heilmikið verið rætt um þessi mál og jafnframt hjá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu. Þar var í apríl s.l. haldin ráðstefna um konuna á vinnumarkaðinum og þar kom fram, að sveigjanlegur vinnutími getur einmitt verið gott tæki til að koma á jafnræði karla og kvenna á vinnumarkaðinum. Á þetta vildi ég drepa.

Það kom engum hv. þm. á óvart að hv. 4. þm. Norðurl. e. skuli hafa fundið kjarnann í þessu máli öllu saman. Það er hans von og vísa að koma til leiks með hnitmiðuð sjónarmið og koma sér beint að kjarna málsins. Af því að ég veit að hann er ákaflega áhugasamur um þetta efni, eins og ræða hans bar rækilega vott um, vil ég upplýsa hann örlítið nánar, því hann lýsti yfir eindregnum stuðningi við þessa till., þannig að hann sé betur til þess fær í kjördæmi sínu og annars staðar að vinna tillögunni fylgi.

Það er munur á svokölluðum breytilegum vinnutíma og sveigjanlegum vinnutíma. Það er kallaður breytilegur vinnutími að vinnutími hefst alltaf á sama tíma hjá sama manni, þannig að einn kemur alltaf kl. 9, annar kannske alltaf kl. 10, sá þriðji alltaf kl. 8, en sveigjanlegur vinnutími er þannig hugsaður, að hver og einn hefur frjálst val á hverjum degi hvenær hann kemur innan ákveðinna marka. Vegna þess að hv. þm. óskaði eftir orði á þýsku um sveigjanlegan vinnutíma skal ég gefa honum það. Það heitir Gleitzeit. Ég vildi gefa honum þessar upplýsingar af því að ég veit að hv. þm. er mikill málamaður, um leið og ég þakka honum, eins og öllum öðrum, hans ágætu undirtektir.

Ég veit ekki hversu náið á að fara út í umr. um þessi mál og skyld að sinni. En ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þau ummæli sem komu fram hjá hv. 8. landsk. þm., þar sem hún minntist á að í Tryggingastofnun ríkisins hefði verið reynt að koma á sveigjanlegum eða breytilegum vinnutíma. (StJ: Hvort var hann sveigjanlegur eða breytilegur?) Ja, það var ekki gott að átta sig á því af ummælum hv. þm. Ég býst við að meðlimur tryggingaráðs geti kannað það hjá hv. þm., sem er honum kærkomin og nærkominn í flokki og vísa þess vegna spurningunni frá mér. (StJ: Fyrst þm. veit þetta ekki á hann ekki að tala um það.) Þar sem mér finnst það eiga við skal ég koma því á framfæri til félaga í tryggingaráði að hér er eitthvert stjórnunarvandamál á ferðinni. Ef tilraun með sveigjanlegan eða breytilegan vinnutíma leiðir til þess, að starfsmenn fara að fá eftirvinnu út á það; er eitthvað að í stjórnun slíkrar stofnunar. Ég veit að þeir, sem eru í tryggingaráði og hafa áhrif á störf þeirrar stofnunar munu vinda bráðan bug að því að gera eitthvað í þessu máli. Ég mun þess vegna koma þeim tilmælum til þeirra.

Hv. 8. landsk. þm. sagði að orðið „fjölskyldupólitík“ færi í taugarnar á sér, það væri tískuorð sem hefði lítið innihald. Ég er henni fullkomlega sammála. Í umræðum í sjónvarpi fyrir nokkru komu fulltrúar stjórnmálaflokkanna fram og belgdu sig út um fjölskyldupólitík og sumir sögðu að í þeirra flokkum væri fjölskyldupólitík sérstakur bálkur. Ég kom fram í þessum umræðum og tel mig hafa sagt það skýrt og skorinort, að ég teldi að fjölskyldupólitík væri ekki annað en það þegar þm. og aðrir stjórnmálamenn teldu sig við lagagerð og við framkvæmdir á lögum vera að koma viðhorfum til skila sem koma fjölskyldum til góða, að fjölskyldupólitík væri ekki eitthvað sem væri tekið út úr og einangrað. Það hlýtur að birtast alls staðar í starfi stjórnmálamanna.

Síðan sagði hv. 8. landsk. þm. að hún teldi að sósíalismi væri eina tegund fjölskyldupólitíkur sem hún hefði trú á. Þetta sagði hv. þm. í framhaldi af því að það væri nauðsynlegt að stytta vinnutímann og hækka launin. Ég vil segja það hér og nú, að stærsta fjölskyldumálið, stærsta atriðið í fjölskyldupólitík er að auka hagvöxt og arðsemi og það er ekki sósíalismi, — a.m.k. ekki sá sósíalismi sem birtist í stefnuyfirlýsingum Alþb. Þetta segi ég vegna þess að aukin arðsemi og meiri hagvöxtur eru grundvöllur þess, að úr meira sé að moða, bæði fyrir atvinnufyrirtæki og einstaklinga sem vinna hjá fyrirtækjum og enn fremur hjá ríkinu sem tekur til sín skatttekjur frá einstaklingum. Ég hygg að hv. þm. hafi verið að leggja áherslu á að einn flokkur öðrum fremur hefði á stefnuskrá sinni fjölskyldupólitík, en þá byggist hún að mínu mati á því fyrst og fremst að fólk geti unnið stuttan vinnutíma, haft há laun. Það gerist ekki nema við veljum þær atvinnugreinar sem gefa okkur mest í aðra hönd. Það köllum við arðsamar atvinnugreinar. Þegar slíkt gengur fram í einhverju þjóðfélagi myndast hagvöxtur, sem er vöxtur þjóðarteknanna, það sem verður til skiptanna umfram það sem var til skipta áður.

Ég vona að í þessu máli hafi ég talað nægilega skýrt til þess að sýna fram á hver er raunverulegur grundvöllur þess að við getum stytt vinnutímann, sem ég er algerlega sammála hv. 8. landsk. þm. um að við verðum að stefna að. Svo geta aðrir þm. og þjóðin öll dæmt um hvor líklegri sé til þess að ná þeim árangri, sjálfstæðisstefnan eða sósíalisminn.

Hv. 5. þm. Vestf, vék að þessu máli og benti á að líkast til hefði verið sveigjanlegur vinnutími allt frá fornöld hér á landi. Ég veit að hann er þm. best að sér í fornum fræðum, og skal ekki etja kappi við hann í þeim efnum. En hann minntist jafnframt á ríkisbúin í þessu sambandi. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að einmitt skortur á sveigjanlegum vinnutíma á ríkisbúunum hefur leitt til þess, að þau eru mun dýrari í rekstri en ella. Þá nota ég að vísu sveigjanlegan vinnutíma í örlítið annarri merkingu en við gerum venjulega þegar við tölum um hann, eins og t.d. í þessari þáltill. (StJ: Það er breytilegur vinnutími, sem þm. á við. — ÓÞÞ: Sveigðan að þörfum atvinnuveganna.) Af því að hér er gripið fram í af ýmsum stuðningsmönnum till. skal ég taka undir mál þeirra með því að segja að auðvitað er það megintilgangur þessarar till. að sveigja vinnumarkaðinn að þörfum fjölskyldunnar þannig að meira sé tekið tillit til einstaklinga og fjölskyldu en því miður hefur verið gert í þeirri iðnvæðingu sem hefur átt sér stað hér á landi. Þetta er auk þess jafnréttismál og hér hafa í umr. jafnframt orðið umr. um hvort þetta sé ekki hluti af því sem við köllum fjölskyldupólitík, hvað svo sem það annars þýðir.

Við flm. teljum að þessi þáltill., ef samþ. verður, hvetji til þess að menn gefi gaum að þessu efni. Ég viðurkenni fyrstur manna að hér er ósköp einfalt mál á ferðinni, en ég rifja upp þau gömlu sannindi að það eru stundum einföldu málin sem eru best.