27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

52. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umr., en þar sem hv. 8. landsk. þm. beindi þeirri spurningu til okkar Matthíasar Bjarnasonar, á hvern hátt þessu væri fyrir komið í sjávarútveginum úti á landi, verð ég að játa að ég er ruglaður í þeim hugtökum sem hér hafa verið notuð, breytilegur eða hreyfanlegur vinnutími. En ég býst við því, að hvergi hafi verið meiri sveigjanleiki í vinnutíma hér á landi en einmitt í frystiiðnaðinum. Það leiðir af því, að mjög margar húsmæður starfa í þessum atvinnuvegi og þær hafa í flestum tilvikum getað samið við stjórnendur fyrirtækjanna um að byrja á breytilegum tímum á morgnana. Ég minnist þess og það eru ekki mörg ár síðan að mjög margar húsmæðurnar mættu kl. 8 eða 9 á morgnana, en hlupu heim kl. 11 til að elda ofan í krakka og mann. (Gripið fram í.) Nei. Þegar kom að kvöldmat hlupu þessar blessaðar konur heim til að elda og komu síðan aftur eftir kvöldmatinn. En ég viðurkenni að víðast er það hugarfar ríkjandi úti á landi að fólk stendur meðan stætt er.

Enn er það, að vissulega vildum við — bæði stjórnendur og þeir sem í þessum atvinnuvegi vinnum — gjarnan sjá fram á þá tíma, að við gætum skammtað okkur vinnutímann eftir hentugleikum og helst ekki haft hann lengri en 8 tíma á dag. Þægilegast væri það og best. Mér finnst það dálítið táknrænt að þessi þáltill. skuli eingöngu miða við ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir og hér skuli vera það hugarfar ríkjandi að það séu þeir einir, ríkisfyrirtækin og opinberir starfsmenn, sem geti látið munaðinn eftir sér.