22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, en tilefni þess, að ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár, er það, að þessa dagana hafa verið að berast skattseðlar vegna álagningar á börn og það hefur valdið ýmsum foreldrum áhyggjum.

Eins og hv. d. er kunnugt voru þau nýmæli í hinum nýju skattalögum, að börn innan 14 ára voru skattlögð sérstaklega að því er varðar launatekjur, eins og fram er tekið í 6. og 7. gr. Í 65. gr. eru síðan frádráttarhugtök skilgreind og í 67. gr. er tekjuskattur ákveðinn 7% af tekjum, og útsvar, sjúkratryggingargjald og kirkjugarðsgjald koma síðan í framhaldi af þessu. Að fara nánar úr í þessa sálma eða gagnsemi þeirra frádráttarliða, sem þarna eru taldir, skulum við láta liggja á milli hluta. Börnin eiga auðvitað sama rétt til frádráttarliða og aðrir, en einn frádráttarlið vantar, nefnilega námsfrádrátt, og það gerir auðvitað nokkurn mun.

Áður voru tekjur barna taldar með tekjum foreldra, en þá var námsfrádráttur veittur fyrir börn sem voru í 7., 8. og 9. bekk grunnskóla, þ.e. á aldrinum 13, 14 og 15 ára gömul. Í eldri lögum voru líka ákvæði um sérsköttun barns og það miðaðist við það, að ef tekjur færu tiltekna tölu fram úr námsfrádrættinum væri réttur á sérsköttun. Seinast þegar þessi tala var ákveðin var hún 120 800 kr. fram yfir námsfrádráttinn. Það mundi samsvara um það bil 175 þús. kr. núna. Námsfrádráttur seinast var ákveðinn 188 þús. kr. fyrir börn í 7. og 8. bekk grunnskóla og 250 þús. kr. fyrir börn í 9. bekk. Þessar tölur samsvara núna, miðað við 45% álag, 273 þús. kr. fyrir 13 og 14 ára börn og 362–363 þús. kr. fyrir 15 ára börn. Tekjur fyrir neðan þessar tölur lögðust náttúrlega ekki við hjá foreldrum til skattlagningar samkv. eldra kerfinu, en ef tekjurnar fóru fram úr því marki bættust þær auðvitað við tekjur foreldranna og komu til skattlagningar á heimilinu í heild. Sérsköttunarákvæðið gerði það svo að verkum, að ef tekjurnar fóru 175 þús. kr. fram yfir þennan námsfrádrátt gat komið til greina sérsköttun, sem er þá hagstæðari foreldrunum en ef tekjur barnsins væru lagðar við tekjur þeirra.

Nú er það auðvitað svo með þessa breytingu, að hún var samþ. hér í hv. Alþ. og ég tók þátt í því eins og aðrir. En mér er spurn hvort þessi mál hafi ekki einhvern tíma verið athuguð sérstaklega í rn. Ég minnist þess ekki, að borist hafi nein sérstök gögn um þetta til fjh.- og viðskn. þegar hún starfaði í þessum málum, og verð að játa að kannske einmitt vegna þess að engin gögn komu um þetta mál leit ég ekki á það sérstaklega og áttaði mig ekki á því, að þarna gæti verið um sérstakt vandamál að ræða, og ég held að það gæti gilt um fleiri hér. Mér er þá líka spurn, hvort þetta hafi ekki verið athugað sérstaklega, þegar álagningin fór fram, og hvort það hafi ekki gefið tilefni til neinna viðbragða eða hvort einhverra viðbragða sé að vænta af hálfu rn.

Ég verð að játa að þegar fólk fór að hafa samband við mig út af þessu leit ég aðeins á hvernig þetta kæmi út í tveimur tilteknum tilvikum. Við getum litið á barn í 7., 8. eða 9. bekk grunnskóla, sem sagt 13, 14 eða 15 ára gamalt, með 250 þús. kr. tekjur. Það hefði ekki gefið neinn skatt samkv. gamla kerfinu, hvorki hjá foreldrum né heldur hjá barninu, því að þar var ekki um sérsköttun að ræða og ekki einu sinni rétt til þess. En samkv. nýja kerfinu sýnist mér að þetta gefi 29 þús. kr. í skatt, þannig að fyrir þessi 250 þús. er þarna um 29 þús kr. í viðbótarskatt að ræða eða hækkun á skatti, en þá hef ég talið með útsvar, sjúkratryggingargjald og kirkjugarðsgjald. Það eru 17 700 kr. af þessu, sem eru tekjuskattshluti. Ef tekjurnar hefðu verið 500 þús. kr., sýnist mér að samkv. nýja kerfinu væri skatturinn um 58 þús. kr. Þetta er flatur skattur svo að auðvelt er að reikna hann út. Hann reynist samkv. nýja kerfinu 58 þús. kr., miðað við 500 þús. kr. tekjur barns á aldrinum 13–14 ára, en samkv. gamla kerfinu hefði barnið orðið skattlaust að sjálfsögðu. Það hefði ekki komið til sérsköttunar, þetta er ekki nægilega há upphæð til þess, fer ekki fram úr þessum 175 200 kr., er reyndar alveg á mörkunum, en til sérsköttunar kemur þá sú tala hjá foreldrunum og skatturinn samkv. því mundi vera 57 500 kr. samkv. gamla kerfinu hjá heimili sem væri í lægsta skattþrepi út frá skattþrepum tekjuskattsins. En ef það væri í hærri skattþrepum yrði hann náttúrlega hærri, 75 þús. ef það væri í næsta skattþrepi og 111 þús. ef það væri í hæsta skattþrepi. Ef þetta barn hefði verið í 9. bekk hefði þessi viðmiðun verið sú, að ef það væri í lægsta skattþrepi hefði skatturinn samkv. gamla kerfinu verið 45 þús. kr., sem sagt 13 þús. kr. lægri samkv. gamla kerfinu en það er nú samkv. hinu nýja. Það er sem sagt 13 þús. kr. hærra, sem á barnið er lagt, en var lagt á foreldrana skv. gamla kerfinu, ef miðað er við þessar tekjur og 15 ára gamalt barn. Ef heildartekjur heimilisins lenda í hæsta skattþrepi hefðu foreldrarnir þurft að greiða í skatta 87 500 kr. af tekjum þessa barns.

Nú sýnist mér af þessu, þó að þetta séu aðeins fáein dæmi, að það, sem fyrst og fremst gerist, sé í fyrsta lagi það, að flutt er frá foreldrum til barna að greiða skattinn. Í annan stað eru börn með lágar tekjur, þ.e. 270–275 þús. kr., ef þau eru í 7. eða 8. bekk. Það urðu engir skattar af tilefni tekna þeirra samkv. eldra kerfinu, en samsvarandi mörk um 360 þús. kr. gáfu ekki heldur tilefni til neinna skatta ef barnið var 15 ára samkv. gamla kerfinu.

Í annan stað má segja að heimili, sem eru með mjög lágar tekjur, fái heldur meiri skatt af þessu, það munar ekki miklu samt, en heldur meiri skatt samkv. þessu en þau fengu samkv. gamla kerfinu, skattlagningin á börnin er hærri en skattahækkunin hefði orðið ef menn voru í lágu skattþrepi, sem sagt heimili með lágar tekjur.

Ég vil ekki rekja þetta frekar, en þær áhyggjur, sem fólk hefur af þessu, gáfu mér tilefni til þess að bera þessar spurningar fyrir ráðh. og þá að sjálfsögðu í framhaldi af þeim að spyrja, ef ekki hafa verið framkvæmdar neinar sérstakar athuganir á þessu, hvort því verði ekki breytt og hvort ráðh. geti þá ekki hugsað sér einhverjar breytingar sem kæmu til framkvæmda á þessu ári, og þá er ég náttúrlega fyrst og fremst að hugsa um þessar lágu tekjur barna sem gefa tilefni til nýs skatts. Ég met það svo að hv. alþm. mundu hafa áhuga á því að fá upplýsingar af þessu tagi og heyra viðbrögð ráðh. við því. Þetta virðist greinilega koma svona út. Ég firri mig engri ábyrgð af því að hafa tekið þátt í lagasetningunni á sínum tíma, en ég held að ég sé á sama báti og aðrir þm. að því leytinu, að þetta hafi kannske sloppið fram hjá. Ég man ekki eftir því, að nein sérstök gögn hafi komið fram um þessa hlið málsins og það má kannske vera manni til einhverrar afsökunar.