27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

57. mál, takmörkun aðgangs erlendra herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þá hugsun sem liggur að baki tillögunni. Ég held að hún sé réttmæt og tímabær.

Við tökum að sjálfsögðu mikla áhættu með dvöl herliðs í Keflavík. Ég vona að við séum sammála um að vilja ekki kjarnorkuvopnabúnað á Íslandi, og auðvitað hafa farið fram umr. hér úr þessum ræðustól í þá veru. Augljóslega getur mjög mikill háski stafað af herskipaferðum og herflugvélaferðum í nánd við Ísland, og það væri mikilvægt ef við gætum haldið frá okkur slíkum ferðalöngum.

Ég veit ekki hvort reglugerðarsetning er nægileg til þess að bægja þeim frá til fullnustu og aflýsa þetta svæði, en það er allténd viljayfirlýsing og þá er betur farið en heima setið.

Ég vil ekki draga úr hv. utanrmn. að stuðla að friði í heiminum ef hún getur lagt þar lóð á vogarskál.

Ég held að við ættum ekki að gera þetta að neinni almennri umræðu um dvöl hersins í Keflavík. Ég hef lýst afstöðu minni til hans áður og þarf ekki að endurtaka það. Ég held að við eigum að verða samferða í þessu máli og hafa um það góðan frið og ég vil þakka hv. flm. fyrir framtak þeirra og frumkvæði í málinu.