27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

57. mál, takmörkun aðgangs erlendra herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað, að frsm., hv. þm. Benedikt Gröndal, hefði verið kominn í salinn nú þegar við höldum umr. áfram, og þó enn fremur hv. þm. Kjartan Jóhannsson, form. Alþfl. Ekki vegna þess að ég ætli að taka þátt í þeim deilum sem hann vakti sérstaklega varðandi hersetu á Íslandi. Ég hygg að hv. þm. Kjartan Jóhannsson hafi — hvort dulvitundin var þar að verki, veit ég ekki — ekki með þessari ræðu sinni gyllt mjög þetta ágæta þingmál, sem fyrirrennari hans í formennsku hjá þeim Alþfl.-mönnum mælti hér fyrir mjög svo málefnalega. Enn er ég þeirrar skoðunar, að þessa þáltill. og efni hennar og þau mál, sem þessi þáltill. vekur til umhugsunar um, öryggismál Íslands og hagsmunamál okkar, þessarar fiskveiðiþjóðar, beri ekki að ræða beint í tengslum við hið forna og nýja deilumál okkar alþm., það hvort hér eigi að vera herstöð eða ekki. Vitaskuld tengist þetta mál herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Það er ósköp eðlilegt að við Alþb.-menn nefnum hættuna, sem af herstöðinni stafar að okkar dómi, í tengslum við þetta mál. En fráleitt er að drepa meginmáli þessarar þáltill. á dreif með almennum umræðum um herstöðvarmálið.

Ég vil vekja sérstaka athygli á þingmáli, sem hv. þm. Benedikt Gröndal mælti fyrir hér á hv. Alþingi árið 1973, þar sem kveðið er mjög ljósum orðum að hugmyndinni um herstöðvalaust Ísland og raunar friðlýsingu hafsvæðisins umhverfis það. Þar segir í 1. mgr. þáltill., að Alþingi feli ríkisstj. að láta rannsaka hvort Ísland geti verið óvopnuð eftirlitsstöð í sambandi við það öryggisbandalag sem landið er aðili að, en síðar meir á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þetta er 1. mgr. þeirrar þáltill.

Nú er það svo, að tímarnir og hin heimspólitíska staða breytast á skemmri tíma heldur en sjö árum. Við gerum okkur öll grein fyrir því, að þegar hv. þm. Benedikt Gröndal mælti fyrir þessari þáltill. fyrir sjö árum stóð svo á að Íslendingar áttu nánast í vopnuðu stríði við annan stærsta aðilann að Atlantshafsbandalaginu, því bandalagi sem átti að vernda þetta land og verja það. Við áttum í raunverulegum átökum við breska flotann á þeim tíma og því eðlilegt að hugir þeirra forustumanna Alþfl., sem hafa verið mjög eindregnir stuðningsmenn aðildar að Atlantshafsbandalaginu og stuðningsmenn hinnar amerísku herstöðvar hér á landi, beindust að því, hvort leita mætti annarra úrræða til þess að tryggja öryggi landsins og hagsmuni þjóðarinnar á hernaðarsviði. Þetta var hugsun þeirrar forustu sem þá var í Alþfl.

Þar kom að landhelgisdeilan var til lykta leidd. Við fengum 200 sjómílna efnahagslögsögu eftir að hafa háð grimmilega baráttu, fyrst fyrir 50 mílna lögsögunni, sem þáv. forustumaður Alþfl., fyrrv. utanrrh. Emil Jónsson, kallaði pólitíska ævintýramennsku að við skyldum ráðast í, að færa þangað út. Það hefur líka verið skipt um forustu í Alþfl. síðan. En ég ætla að þegar málin verða skoðuð ofan í kjölinn hafi ekki orðið þar nein grundvallarstefnubreyting í þeim málum sem lúta að öryggismálum landsins né að því stóra hagsmunamáli sem þáltill. sú, sem hv. þm. Benedikt Gröndal gerði hér grein fyrir, lýtur að.

Ég geri mér ekki alveg ljósa grein fyrir hvernig það yrði rökstutt, að við fylgdumst miklu betur með herskipaferðum í kringum Ísland eða ferðum kafbáta innan landhelgi okkar vegna herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli en við ella mundum gera. Hv. þm. Benedikt Gröndal sagði okkur í framsöguræðu sinni frá því atviki nú fyrir skemmstu, er ókennilegur kafbátur sást á yfirborði innan fjögurra sjómílna frá landi hér fyrir vestan. Það voru skipverjar á Víkingi sem sáu þennan kafbát, og þrátt fyrir veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli vitum við ekki hvers konar kafbátur þetta var eða hverrar þjóðar. Það hefur ekki einu sinni verið gengið úr skugga um það með vottum þeirra varnarliðsmanna, hvort þar var um kafbát að ræða eða ekki.

Ég vil ekki einu sinni leiða getum að því, hvaðan andstaðan gegn friðlýsingarhugmyndinni yrði hörðust, af hálfu hvors risaveldanna sú andstaða yrði hörðust. Hitt er mér alveg ljóst, að það væru hagsmunir okkar að stugga herskipum risaveldanna burt úr efnahagslögsögu okkar eða lýsa a.m.k. eindregið yfir því og einum rómi, að svona framferði vildum við ekki hafa innan okkar efnahagslögsögu og á okkar fiskislóð.

Vegna þeirra ummæla hv. þm. Benedikts Gröndals, að auðveldara hefði verið að friðlýsa Indlandshafið heldur en Norður-Atlantshafið, vil ég gera þá athugasemd, að ef mig minnir rétt er Indlandshafið allt að því fjórum sinnum sinnum stærra að flatarmáli heldur en það svæði sem gengur undir nafninu Norður-Atlantshaf, hvað þá ef við tölum um Norðaustur-Atlantshafið, og þar búa miklu fleiri þjóðir. Við Norður-Atlantshafið koma þó ekki til álita nema þessi tvö risaveldi sem uppi halda þessum atgangi sínum umhverfis landið okkar, náttúrlega styrkt litlum flotadeildum frá öðrum Atlantshafsbandalagsríkjum sem raunverulega skipta engu máli í þeim leik.

Ég lýsi enn yfir stuðningi við þessa þáltill. Alþfl., enda þótt núv. formaður flokksins hafi ekki í ræðu sinni styrkt þá hugsun mína, að nokkur alúð liggi á bak við tillöguflutninginn af hálfu Alþfl., a.m.k. ekki af hans hálfu, enda má það til sanns vegar færa, að það sé fremur vegur fyrrv. formanns flokksins, sem af þessu máli vaxi, en hins síðarnefnda. Ég lýsi yfir stuðningi við þessa till. og þeirri trú minni, að hugsunin; sem að baki henni liggur, geti orðið kveikja að víðtækara samstarfi um það hagsmunamál okkar að vernda fiskislóðina okkar fyrir hugsanlegri eitrun eða eyðileggingu af völdum geislavirkra efna og í öðru lagi að samstarfið sem að því lúti að tryggja öryggi þessa lands með öðrum hætti en þeim að taka þátt í hinum gráa leik sem leikinn er í nafni ógnarjafnvægis, sem kallað er. Það hlýtur að verða markmið okkar, hvað svo sem verður um hrunadansinn milli risaveldanna, að kappkosta að nýta hvern þann möguleika sem við sjáum til að tryggja að þessi þjóð haldi áfram að vera til.