27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

117. mál, undirbúningur almennra stjórnsýslulaga til að auka réttaröryggi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil fagna þeirri hugsun sem liggur á bak við þá þáltill. sem hér er borin fram, að auka þurfi réttaröryggi einstaklinga og tryggja skuli betur en gert er athafnir framkvæmdavaldsins, þannig að ekki komi til afturvirkni e.t.v. um átta ára skeið, eins og gerðist varðandi eignarnám það sem átti sér stað austur á fjörðum. Hins vegar verð ég að lýsa því yfir, að mér finnst eins og hv. flm. sé það ekki fullkomlega ljóst sjálfum, hvort hann telji að þörf sé á þessum lögum hér á landi. Það kemur skýrt fram í þáltill. sjálfri. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því skyni sé skipuð nefnd til að fjalla um mál þetta og semja um það frv., ef ástæða þykir til.“

Þetta „ef“ væri ekki þarna ef það væri ekki einhver vafi að dómi flytjanda. Og ég vil alfarið mótmæta því, að það sé meiri þörf á slíkri lagasetningu hér á landi en annars staðar af þeirri ástæðu sem fram var borin, að hér væru við völd þeir aðilar sem vildu svo mikla ríkisforsjá að þeir vildu troða einstaklingunum um tær.

Ég vænti þess aftur á móti, að menn leggi slíkar hugsanir til hliðar og slíkan ágreining, sem af þeim sprettur, ef þeim er fram haldið af fullri alvöru, sem mér er ekki ljóst, enda vildi ég þá fá skýr dæmi um slíkt. Ég vil þess vegna undirstrika það, að ég er hlynntur því, að sú könnun fari fram sem þáltill. gerir ráð fyrir, en í ljósi þeirrar niðurstöðu, sem könnunin leiðir til, verði tekin ákvörðun um hvert framhaldið verður.