27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

132. mál, bætt nýting sjávarafla

Flm. (Gunnar R. Pétursson):

Herra forseti. Það hefur um árabil verið stolt okkar Íslendinga að framleiða fiskafurðir í hæsta gæðaflokki. Nú ber svo við, að þær raddir heyrast á síðari tímum að gæðum hafi farið hrakandi. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á hvort það sé einhverjum að kenna, því það þykist ég vita að enginn gerir það að gamni sínu að framleiða lélega vöru. En margt getur komið til, m.a. að afli berist hraðar og meiri að landi en svo að hægt sé að vinna hann það tímanlega að úr aflanum fáist fyrsta flokks vara.

Í gegnum árin hef ég fylgst með auknum þrýstingi á sjómenn um betri meðferð á afla, og ég veit að ég fer með staðreyndir þegar ég segi að það sé viðburður, ef fiskur kemur skemmdur á land, og tel að útgerð og sjómenn standi þar feti framar fiskvinnsluhúsum í meðförum hráefnis. Nú er það svo, að margt getur valdið, m.a. að húsin séu ekki útbúin því geymslurými sem þarf til að taka á móti stórum förmum af togurum. Það er vitað mál, að í allstóran hluta frystihúsa vantar kæligeymslur til að geyma aflann óskemmdan þar til vinnsla getur farið fram. Dæmi eru til þess, að fiskur, sem að landi hefur komið og lent í fyrsta flokki upp úr skipi, hefur síðan að hluta til lent í skreið, og það sem verra er, í mjölvinnslu, en það tel ég vera hámark niðurlægingar að þurfa að setja þennan dýra fisk, sem sjómönnum er bannað að veiða stóran hluta úr árinu, í þró. Þar á ég að sjálfsögðu við þorskinn.

Spyrja má hvort það sé ekki arðbær fjárfesting að aðstoða þau frystihús, sem ekki hafa næga kæligeymslu fyrir kassafisk af togurum, að koma sér upp slíkum geymslum. Það er augljóst mál, að fjárhagslega hlýtur það að vera neikvætt fyrir rekstur frystihúsa að kaupa togarafarm af fyrsta flokks fiski og þurfa að geyma hann í 4–8 daga og fá þá stóran hluta hráefnisins í þriðja eða fjórða flokk vegna þess að ekki tekst að vinna aflann nógu hratt og geymslur eru ekki sem skyldi. Því hafa komið upp hugmyndir um stjórnun á löndun togara. Þá er að sjálfsögðu átt við tilfærslur milli löndunarhafna.

Í ljósi þess, sem ég hef hér sagt, leyfi ég mér, herra forseti, að leggja fram eftirfarandi þáltill. ásamt meðflm. mínum, hv. þm. Árna Gunnarssyni og Ágúst Einarssyni. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela sjútvrh. að skipa nefnd til að athuga hve mikil brögð eru að því, að fiskvinnslufyrirtæki taki við fiski af fiskiskipum örar en vinnslugeta leyfir. Einnig verði hlutverk nefndarinnar að kanna að hve miklu leyti minnkandi gæði frystra afurða megi rekja til þess, að fiskurinn liggi óunninn í landi. Nefndin skal skila áliti um úrbætur og hafa í huga hvort möguleiki er á stjórnun á löndun afla, fyrst og fremst togara.“

Í grg. segir: „Gefa má gaum að orðum sjútvrh. um, að á næsta ári megi reikna með 150 skrapdögum hjá togaraflotanum, og út frá því hafa í huga hvort nýting fiskiskipaflotans yrði ekki betri ef stjórnun fisklöndunar kæmi í stað fleiri fiskiskipa.

Þar eð löngu er viðurkennt að fiskiskipastóll landsmanna er orðinn nægilega stór og jafnvel of stór þykir flm., að það hljóti að vera þjóðhagslega hagkvæmt að auka nýtingu flotans, og telja, að aldrei megi koma fyrir að landburður af fiski á einstaka stað valdi því, að íslenskur fiskur glati þeim gæðastimpli sem hann hefur haft á erlendum markaði.“

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að till. verði vísað til atvmn.