27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

132. mál, bætt nýting sjávarafla

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Hér er hreyft allviðamiklu máli sem er lengi búið að vera til umræðu og í brennidepli hjá hagsmunasamtökum og fjölmiðlum. Eins og hv. flm. gat um er það rétt, að meðferð á hráefni hjá íslenskum togarasjómönnum og skipshöfnum almennt hefur farið mjög batnandi hin síðustu ár, og ég vil segja að hún sé orðin til fyrirmyndar nú þegar við löndun á íslenskum markaði. Aftur á móti hefur nokkuð borið á því á erlendum markaði, því miður, einkum á enska markaðnum, að skip hafi verið of lengi í túrnum og ekki skilað þeirri vöru þangað sem með þurfti. Það er þá fyrst og fremst sá fiskur sem veiddur er hér á sumartíma við slæmar aðstæður, netafiskur sem í flestum tilvikum þolir mjög illa að fara á erlendan markað.

Hv. flm. varpaði fram þeirri spurningu, hvort móttaka í landi væri nógu góð fyrir þennan fisk. Það er rétt, að á mörgum stöðum er misbrestur á því, að móttökuskilyrði séu nógu góð, og ég tek undir það, að þarna þarf verulega um að bæta. Eitt frumskilyrðið fyrir því að geta skilað góðri afurð úr frystingu er að hafa góðar móttökur og kæligeymslur.

Á síðari árum hefur frystihúsavinna orðið verksmiðjuvinna hvað atvinnuöryggi snertir. Þar hefur verið leitast við að skapa fólki fasta og stöðuga vinnu, í stað þess að áður var það þannig, að þegar hráefni skorti var fólkið rekið heim og sagt: Þið verðið kölluð næst. — Sem betur fer erum við komin af þessu stigi. Þess vegna þarf að leitast við að fá sem mesta jöfnun á það hráefni sem landað er á hinum einstöku veiði- og vinnslustöðvum. Þar held ég að potturinn sé hvað mest brotinn, og það held ég að sé brýnt að kanna, að þróunin hefur orðið sú, að það eru komin í mörgum tilvikum of mörg og of stórtæk veiðiskip til að landa á hinum smærri stöðum þar sem er ekki nokkurt bolmagn til að koma þessum afla undan, þó að unnið sé fram undir miðnætti á hverju kvöldi og flestar helgar. Og þá fer þetta hráefni auðvitað ekki í þann gæðaflokk sem efni stóðu til.

Það þarf að vinna að betri jöfnun á hráefninu í landinu, en aftur á móti er það erfiðleikum bundið að fá skipshafnir til að sigla á milli hinna einstöku staða til að landa aflanum. Því vilja skipshafnir ekki una. Við skulum gera okkur það ljóst, að við getum ekki sagt skipshöfnum að landa á þessum staðnum þennan túrinn og hinum staðnum hinn túrinn. Það er einnig erfitt að flytja skip á milli hafna þar sem þau á annað borð eru komin á þessa staði. Hins vegar er jafnhörmulegt að horfa á það, að nokkrir staðir á landinu sitja uppi hráefnislitlir eða jafnvel hráefnislausir, staðir sem eru með allvel búin frystihús og ágætt vinnuafl. Þessi mál verða sjálfsagt rædd hér á hv. Alþ. í næstu viku, ef marka má fsp. sem fram eru komnar, en ég stillti mig ekki um að koma hér aðeins fram með þetta sjónarmið. Þarna þarf að koma meiri jöfnun á. Það er engin bót að því að flytja inn skip til þeirra staða sem hafa ekki meira vinnuafl en svo, að þeir þurfa að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl til að geta unnið aflann, meðan aðrir staðir standa uppi með tæki og gott innlent vinnuafl, en geta ekki starfað vegna hráefnisskorts. Því miður höfum við of mörg dæmi um þetta.

En ég fagna þessari till. og er því meðmæltur, að þetta verði kannað vel og leitað ráða til að jafna hráefninu sem mest og við megum á öllum tímum stuðla sem allra mest að því að senda frá okkur vandaða og góða vöru og gera íslenskan fisk að eftirsóttri vöru á erlendum mörkuðum.