22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að ekki er að ófyrirsynju að þetta mál sé tekið upp á hinu háa Alþingi. Ég held að það hafi alla vega komið ýmsum á óvart að nú seint á þessu ári skuli skattálagning á börn sérstaklega verða með þeim hætti sem hún hefur orðið. Ég held að mörgum hafi fundist að þetta væri punkturinn yfir i-ið í framkvæmd skattastefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar.

Ég vil taka undir það, að þessar álögur þurfi athugunar við. Ég tek það fram, eins og hv. fyrirspyrjandi, að um það var samstaða að börn yrðu skattlögð sérstaklega, en hins vegar varð engin samstaða um það hér á hinu háa Alþingi, hversu hár slíkur skattstigi yrði. Í tengslum við það mál fluttum við sjálfstæðismenn einmitt nokkrar tillögur til lækkunar á skattstigum yfirleitt. Ef ég man rétt var þar líka gerð tillaga um lækkun á skattlagningu barna. (StJ: Þingmaðurinn man ekki rétt.) Þetta er rétt, Stefán Jónsson. Við getum skoðað þetta í þskj. og við getum svo komið okkur saman um það prívat hvað við leggjum undir.

En í sambandi við þetta mál vil ég vekja athygli hv. d. á því, að tekjuskattur á árinu 1980 varð 1.5 milljörðum hærri, álögurnar urðu 1.5 milljörðum hærri en fjárlög gera ráð fyrir. Hæstv. ráðh. hefur æ ofan í æ haldið fram, að stefna hans væri sú, að tekjuskattar einstaklinga og félaga gæfu nákvæmlega það sem fjárlög segðu til um, enda væri þá ekki um íþyngingu skatta að ræða. (Fjmrh.: Þm. ruglar saman álögðum og innheimtum skatti.) Það er ekki rétt. Í frv. hæstv. ráðh. sjálfs stendur: „Nettóálagning tekjuskatts einstaklinga hefur því samkv. þessum tölum numið tæpum 45 milljörðum kr. og er það 1.5 milljörðum umfram fjárlagaáætlun.“ — Það er engum blöðum um þetta að fletta. Hæstv. ráðh. hlýtur að kunna eigið frumvarp. (Gripið fram í: Hann kann það augsýnilega ekki.)

Í öðru lagi eru eignarskattar einstaklinga 2 milljörðum hærri en fjárlagaáætlun gerir ráð fyrir eða nálægt því. Hæstv. ráðh. hefur því 3.5 milljarða kr. fúlgu umfram fjárlög í álögðum tekju- og eignarsköttum á þessu ári og ætti ekki að þurfa að hugsa sig um þegar síðast á árinu er verið að leggja skatt í fyrsta skipti á börn með þeim hætti, sem nú er, heldur gera nú bragarbót og lagfæra þá skattaálagningu. Ég er þeirrar skoðunar, að það væri eðlilegt fyrsta skref núv. hæstv. ríkisstj. í því að snúa til baka á þeirri leið sem hún hefur farið í skattpíningu að undanförnu. Hæstv. ráðh. hefur, eins og ég segi, svigrúm til að fella þessa skatta niður með öllu og það væri eðlilegast að minni hyggju.