27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

132. mál, bætt nýting sjávarafla

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um bætta nýtingu sjávarafla. Það verður auðvitað ekki deiluefni, að öll viljum við bæta nýtingu sjávarafla. Hitt er svo annað mál, að hér er aðeins gripið á hluta af þeim vanda sem þar er við að etja, og það vekur til umhugsunar hvort þessi mál verði nokkurn tíma leyst nema með gerbreyttri fiskveiðastefnu.

Sú fiskveiðastefna þyrfti að byggjast á því að samræma veiðar, vinnslu og markað og standa þannig að framleiðslunni að um jafna atvinnu landverkafólks verði að ræða. Ég get tekið undir það, að það er erfitt að ná þessum markmiðum. Þetta er raunverulega spurningin um það, hvort við komumst af veiðimannastigi yfir í hjarðbúskap. Og ég vil bæta því við, að ég legg mikið upp úr því, að íslenskir sjómenn, eigendur fiskvinnslutækja í landi og allir þeir hagsmunaaðilar, sem þarna koma við sögu, reyni að ná víðtækri samstöðu á þessu sviði. Því miður hefur farið svo, að það er fyrst og fremst um skæklatog að ræða milli landshluta. Einn stendur upp og lofar netaveiði og talar um að henni sé hallmælt og vekur athygli á því, að það hefur gleymst að blóðga línufisk í veiðiferð sem sýnd var í sjónvarpinu. Einn tekur sig til og ver meðferð aflans í landinu, en annar leggur áherslu á að allt sé í lagi á sjónum. Meðan við teljum okkur hvert og eitt að staðaldri vera að verja mjög ákveðið vissan hagsmunahóp, en tökum málið ekki fyrir út frá hinu sjónarhorninu, svo að við náum heildarárangri, þá held ég að við sitjum uppi með það, að af og til berst á land mikið magn af afla með lítið geymsluþol — mjög lítið geymsluþol. Það má vera að hægt sé að segja að lítið af aflanum sé skemmt þegar hann kemur að landi, en hann hefur mjög lítið geymsluþol. Og hann berst það ört að, að fiskvinnslustöðvar hafa ekki undan með þeim mannafla, sem þær hafa, að vinna þennan afla. Svo koma tímabil þegar landverkafólk fær enga vinnu. Þetta er náttúrlega í einu orði sagt, ekki hægt. Við höfum ekki efni á því að standa svona að þessu.

Ég er alveg sannfærður um að það verður að setja ákvæði um það, að togarar megi ekki vera lengur að veiðum en vissan tíma, þannig að það sé hámarksaldur á þeim fiski sem komið er með að landi. Ég er alveg sannfærður um að það verður að fylgja því eftir, að það sé hámarksfjöldi neta hjá skipum. Og ég er alveg sannfærður um að það er ekki orðið úrelt að það þurfi að blóðga fiskinn. En ég harma það aftur á móti, að þótt okkur hafi miðað áfram í því að vernda fiskinn í sjónum hefur okkur ekkert að ráði tekist betur að standa að því að ná heildaryfirstjórn á veiðunum. Þar hefur framförin orðið lítil. Og það kom fram í ræðu hv. 9. landsk. þm., sem er mjög kunnugur þessum málum, að hann taldi að það hefði orðið afturför hvað gæðin varðaði — gæði þeirrar vöru sem við erum að selja úr landi.

Ég legg á það þunga áherslu, að við verðum að hætta þeirri hatrömmu deilu sem hefur verið innanlands um þessi mál og hefur byggst á skæklatogi. Hver landshluti og hver staður hefur viljað verja sína hagsmuni mjög grimmt í þessum efnum, og við höfum ekki náð þeim árangri sem skyldi. Ég hef enga trú á þessu skrapdagakerfi. Ég hef enga trú á því. Ég held að mönnum hljóti að fara að verða það ljóst, að við náum aldrei nema mjög takmörkuðum árangri með því móti. Og ég vona að hagsmunaaðilarnir, sem eru Alþingi til ráðuneytis um þessi mál, geri sér grein fyrir því, að æskilegast er að þeir nái samstöðu um ákveðnar tillögur og að við komum þeim á framfæri, en að Alþingi þurfi ekki að fara út í það að berja fram ákveðna lausn sem væri kannske í óþökk mjög margra. Ég tel að við þurfum að sýna vissa biðlund enn gagnvart hagsmunasamtökum í þessum efnum, en ég veit ekki hversu lengi Alþingi getur beðið áður en það lætur það mál alvarlega til sín taka, að gæði þeirrar framleiðslu, sem við erum að senda úr landi og okkar lífskjör byggjast á, fari versnandi. Það er ekki verjandi að bíða lengi eftir lausn í þeim efnum.