27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

132. mál, bætt nýting sjávarafla

Flm. (Gunnar R. Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla að nota tækifærið, ef mér gefst það ekki aftur í náinni framtíð að standa hérna, til að víkja að tali manna um að takmarka útivistardaga togara. Sannleikurinn er sá, að það er alls ekki hægt. Togari getur sneisafyllt sig á 2–3 dögum og hann má kannske vera 5 daga úti. Þá er hann búinn að veiða miklu, miklu meira en nýtanlegt væri þegar í land er komið. Það þýðir ekkert að tala um að takmarka útivistardagana, það er bara tóm vitleysa.

Svo langar mig aðeins að nefna það sem fram kom hjá hv. 9. landsk. þm. Ég verð að segja að það eru alveg splunkuný sannindi ef skreið er orðin jafnverðmæt og frystur fiskur í fyrsta flokki. Það eru alveg splunkuný sannindi. Mér finnst það alveg furðulegur málflutningur hér á hinu háa Alþingi að koma með þetta hingað inn.