02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

343. mál, raforka til húshitunar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 22 að flytja svofellda fyrirspurn til hæstv. iðnrh. um raforku til húshitunar:

„Hefur dregið úr eftirspurn eftir raforku til upphitunar húsa á veitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins síðustu mánuði? Ef svo er, hver er ástæðan að mati rn.?

Eru dæmi þess, að húshitun með raforku sé dýrari en með olíu eftir að olíustyrkur er dreginn frá upphitunarkostnaði, miðað við núgildandi verð á olíu og rafmagni?“

Eins og hv. þm. muna voru samþ. ný lög á Alþ. í fyrra um styrki til niðurgreiðslu á verði olíu til húshitunar. Þessir styrkir voru nokkuð hækkaðir frá því sem áður var og heimildir veittar til víðtækari niðurgreiðslu á olíu en áður. Voru ætlaðir 4 milljarðar til að greiða þessa olíustyrki í fyrra. Í ár eru ætlaðir til þessara þarfa samkvæmt fjárlagafrv. 5 milljarðar kr., og hækka styrkirnir einungis um 25% í 50% verðbólgu þannig að það er verið að rýra raungildi þessara styrkja á sama tíma sem ætlunin er að innheimta með orkujöfnunargjaldi svokölluðu 13 milljarða kr. í ríkissjóð.

Það hefur flogið fyrir, að einstaka menn telji sig heldur betur komna með það að fá olíustyrki og hita hús sín með olíu en að óska eftir raforku til upphitunar. Það hefur heyrst að þetta hafi skeð og að dregið hafi úr eftirspurn eftir raforku til húshitunar af þessum ástæðum.

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni, að ég held að hæstv. ríkisstj. sé ekki á réttri leið ef hún ætlar sér að draga úr þessum vanda með því að lækka olíustyrkina að raungildi, eins og hún sýnist ætla að gera, heldur ætti að gera eitthvað í málefnum Rafmagnsveitna ríkisins þannig að raforka til húshitunar yrði betri kostur í öllum tilfellum en að nota erlenda niðurgreidda olíu.