02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

343. mál, raforka til húshitunar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil mótmæla þeirri skoðun, sem hér hefur verið látið að liggja, að olíustyrkur hafi verið of mikill til þeirra aðila sem hafa þurft að kynda upp íbúðarhús sín með olíu. Það þekkja allir, sem eru frá þeim svæðum þar sem olía hefur verið notuð, hvílíkur baggi olíukostnaðurinn hefur verið heimilunum. Hins vegar liggur það ljóst fyrir í þeirri stöðu, sem við erum komin í nú, að eðlilegt væri að athuga hvort með lánafyrirgreiðslu væri ekki hægt að koma þeirri breytingu hraðar á að menn tækju upp raforku í staðinn fyrir olíu hvar sem það er hægt. Ég vil þó vekja athygli á því, að eins og háttað er orkumálum þessa lands virðist ekki vera um neina afgangsorku að ræða á þessum vetri.