02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

343. mál, raforka til húshitunar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er hér verið að ræða mál sem varðar niðurgreiðslu á olíu. Þegar við tölum um niðurgreiðstu á olíu er það á þeim grundvelli að það þurfi að jafna aðstöðu fólks í landinu, jafna það bil sem er á milli þeirra, sem eru á olíukyndingarsvæðunum, og hinna. Það hefur verið mesti vandinn í þessu máli að koma slíkri jöfnun á. Þessi jöfnun er núna að mínu viti ekki nægilega mikil. Það er vandinn sem við er að fást.

Hæstv, iðnrh. gaf þær upplýsingar, að upphitun með raforku væri nú 23% ódýrari en með olíu, og upphitun með flestum hitaveitum er miklu ódýrari, eins og kunnugt er. Af þessu má sjá að það, sem við þurfum að einbeita okkur að í þessu máli, er að auka olíustyrkinn. Við þurfum að gera það í bráð. En aðalviðfangsefnið er að hraða framkvæmdum sem nauðsynlegt er að gera til þess að við getum komist sem mest hjá því að nota olíu til upphitunar húsa. Í því efni hefur verið gert mikið að undanförnu. Hæstv. iðnrh. vék að fjarvarmaveitum sem hann taldi upp að væri í undirbúningi á ýmsum stöðum á Austfjörðum og einum, að mig minnir á Snæfellsnesi. En það er ekkert á móti því að það komi hér fram, að brautryðjandastarf í þessu efni hefur verið unnið af Orkubúi Vestfjarða. Það er þegar búin um nokkurt skeið að vera í starfrækslu slík fjarvarmaveita á Ísafirði og er hún nú í stækkun. Þá er í undirbúningi slík framkvæmd í Bolungarvík og á Patreksfirði.