02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

343. mál, raforka til húshitunar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil leggja hér nokkur orð í belg.

Það er ljóst öllum, sem hafa kynnt sér vandamál þeirra sem hafa orðið að búa og verða að búa við olíukyndingu, hversu gífurlegt vandamál það er. Skal ég ekki ræða um það frekar. Það ætti að vera öllum hv. þm. nægjanlega ljóst. En það, sem ég vil leggja áherslu á í þessum umr., er fyrst og fremst að ég held að allir hafi verið sammála um nauðsyn þess að nýta innlenda orkugjafa til upphitunar, og ég veit ekki betur en það sé á stefnuskrá hæstv. ríkisstj. að hraða framkvæmdum á því sviði. Hefur verið talað um að um væri að ræða þriggja ára verkefni að koma því í framkvæmd þannig að innan þess tíma yrði olíukynding húsa svo til úr sögunni. Þetta er kjarni málsins sem ég tel að verði að hafa í huga þegar er verið að ræða þessi mál.

Ég vil nota tækifærið og segja það hér, að mér finnst óeðlilegt hvað það hefur dregist árum saman, að ekki hefur verið hægt að fá um það raunverulegar upplýsingar, hvernig gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins er samsett. Þetta er atriði sem oft hefur verið spurt um og reynt að fá svör við, en svör hafa ekki fengist.

Að mínu mati ætti að vera sjálfsagt að raforkuverð til upphitunar húsa væri það lágt að það hvetti til breytinga. Ég get þó ekki stillt mig um, fyrst ég er kominn hingað, að minna á að margir þéttbýlisstaðir, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., hafa verið að undirbúa fjarvarmaveitur þar sem er ekki fyrirliggjandi heitt vatn. En við, sem búum á þessum svæðum, höfum ekki fengið svar við því enn, hvaða verð Rafmagnsveitur ríkisins geta boðið í samningum um slíkar fjarvarmaveitur. Þetta er stórmál sem ég vænti að fáist upplýsingar um áður en langur tími líður.