02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

343. mál, raforka til húshitunar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Mér fannst að hæstv. iðnrh. væri að láta að því liggja eða ýja að því, að það væru til menn sem létu sér detta í hug að greiða niður innlenda orkugjafa til húshitunar, og mér kom til hugar að hann hefði kannske misskilið það sem ég var að segja áðan. Ég held að enginn láti sér detta slíkt í hug. En ég held að áherslan í þessum málum sé ekki á réttum stað þegar menn óttast að það kunni í einstaka tilfellum að vera svo, að rafmagnsupphitun geti undir vissum kringumstæðum verið dýrari en upphitun með olíu. Það er í slíkum undantekningartilfellum að naumast tekur því að tala um það í þessu sambandi.

Ég held að það sé engin hætta á ferðum. Við erum ekkert nálægt því að hugsa um að hætta að nota innlenda orkugjafa til upphitunar húsa. Það er ekkert nálægt því. Það munar núna um 23% á kostnaði við upphitun með olíu og rafmagni þegar reiknað er með niðurgreiðslunni. Hvað vita menn um hvað niðurgreiðslan verður mikil í næstu framtíð? Hvað vita menn um olíuverðið? Það eru ekki til nokkurs staðar ábyrgir menn í landinu sem láta sér detta í hug að draga eitthvað úr viðleitni og framkvæmdum til þess að taka í notkun innlenda orkugjafa. Slíkt er algjör fásinna. Og það er ekki í anda þess að koma á jöfnuði í þessu meðan menn láta sér nægja að það sé 25% munur á hitunarkostnaði. Það er ekki nægilegt jafnrétti. En það kann að vera nægilegt til að beina athyglinni frá aðalatriði málsins í þessu efni.