02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 22 flytur hv. þm. Lárus Jónsson, 3. þm. Norðurl. e., fsp. um kaupmátt launa og beinir henni til félmrh. Hann ætlar ekki að víkjast undan því að svara þessari fsp. En ég vil benda á það til glöggvunar, að þær stofnanir, sem eiga að hafa með höndum skrár um upplýsingar af þessu tagi, eru Hagstofan, Þjóðhagsstofnun og Kjararannsóknarnefnd. Hagstofan er auðvitað sjálfstætt ráðuneyti, en Þjóðhagsstofnun heyrir undir forsrn. og ég man ekki betur en Kjararannsóknarnefnd geri það líka. En ég ætla sem sagt að svara fsp. allt að einu.

Það er fyrst spurt í a-lið um kaupmátt launa miðað við 100 á öðrum ársfjórðungi 1977. Svarið er: Á fyrsta ársfjórðungi 1980 112, á öðrum ársfjórðungi 1980 107.3, á þriðja ársfjórðungi 1980 107.8. Miðað við þriðja ársfjórðung 1977 sama sem 100 er svarið þetta: 94.9 á fyrsta ársfjórðungi 1980, 90.9 á öðrum ársfjórðungi 1980, 91.3 á þriðja ársfjórðungi 1980.

Hækkun vísitölu framfærslukostnaðar frá öðrum ársfjórðungi 1977 til þriðja ársfjórðungs 1980 er 261.9% og er það byggt á áætlun að hluta. Vísitala framfærslukostnaðar var 730.76 stig 1. maí 1977, en 2600.08 stig 1. ágúst 1980 og hafði hækkað á tímanum um 255.8%.

Hv. þm. minntist hér aðeins á þróun viðskiptakjara og taldi að þegar kjarasamningar voru gerðir 1977 hafi viðskiptakjör verið í verulegri lægð. Það er mikill misskilningur. Viðskiptakjör á árinu 1977 voru allt að 20% betri en þau eru núna. Á árinu 1977 voru viðskiptakjör 108.5 á móti 100 1972. Á þessu ári eru sambærilegar tölur niðri undir 90. Ég hef ekki tölur fyrir síðasta ársfjórðung eða þriðja ársfjórðung 1980 við höndina, en sambærilegar tölur eru niðri undir tölunni 90. Viðskiptakjörin fóru á fyrsta ársfjórðungi 1980 niður í 91.2 og á fjórða ársfjórðungi 1979 niður í 90.1, þannig að viðskiptakjörin á árinu 1977 eru einhver þau hæstu sem verið hafa á áratugnum sem nú er að kveðja. Hæstu og bestu viðskiptakjör, sem um er að ræða á þeim áratug, voru á árinu 1973. Þá voru viðskiptakjörin 115.3 á móti 100 árið 1972. Það er því misskilningur hjá hv. þm. að viðskiptakjörin á árinu 1977 hafi verið slæm. Þau voru mjög góð miðað við það sem við eigum við að búa nú.

Ef við tökum hins vegar árið 1976 eru viðskiptakjörin nokkru lakari en þau eru árið 1977, eða 100.1, svipuð og árinu 1972. Ef við athugum kaupmátt kauptaxta og þróun þeirra miðað við sambærilega viðskiptakjarastærð, sambærilega getu þjóðarbúsins, og setjum árið 1976 á 100 lítur dæmið þannig út, að 1977 er kaupmáttur kauptaxta 112, 1978 120, 1979 119 og 1980 114. Ef við lítum í þessu sambandi á kaupmátt ráðstöfunartekna á mann og miðum við árið 1975 sama sem 100 er kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann 102.3 árið 1976, 114.6 árið 1977, 123.8 árið 1978, 123 árið 1979 og 119.2 árið 1980. Ef við tökum aftur þróunina frá 1976 og athugum þrjár stærðir samhliða fram til 1980, þ.e. hvernig kaupmáttur kauptaxta hefur breyst, hvernig kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur breyst, hvernig kaupmáttur þjóðartekna á mann hefur breyst og hvernig viðskiptakjör hafa breyst, kemur í ljós að viðskiptakjör á árinu 1980 eru mun lakari en á árinu 1976, líklega um 10% lakari. Þetta er það fyrsta. Annað er það, að kaupmáttur þjóðartekna á mann hefur á þessum sama tíma aukist um 6.3%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur aftur á móti á sama tíma aukist um 16.5% og kaupmáttur kauptaxta hefur á sama tíma batnað um 13.9%.

Ástæðurnar fyrir þeirri skerðingu, sem orðið hefur á kaupmætti launa á undanförnum misserum, eru fyrst og fremst fólgnar í ákvæðum svonefndra Ólafslaga þar sem gert er ráð fyrir ferns konar frádrætti við útreikning verðbótavísitölu. Þar er í fyrsta lagi um að ræða frádrátt vegna hækkunar olíustyrks. Í öðru lagi er þar um að ræða frádrátt vegna þeirrar meðferðar sem áfengi og tóbak fær nú í vísitölu framfærslukostnaðar. Í þriðja lagi er þar um að ræða frádrátt sem stafar beint frá launalið bóndans í búvörugrundvellinum. Og í fjórða lagi hefur verið frádráttur frá verðbótum á laun vegna verulegrar viðskiptakjararýrnunar sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir. Þegar þetta allt er skoðað finnst skýringin á því, af hverju kaupmáttur launa hefur rýrnað. En hinu megum við ekki gleyma, að árið 1980 stóðu yfir í níu mánuði kjarasamningar. Það var ekki fyrr en undir lok ársins að þeir kjarasamningar tókust, og undir lok þess árs tekst að hífa kaupmátt launa mjög verulega upp frá því sem er að jafnaði á árinu.

Spurningin er hins vegar sú, og um það snýst hugur manna talsvert núna í þeirri umræðu sem fram fer um efnahagsmál, hversu tekst að varðveita þann kaupmátt launa sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Um þau mál var rætt hér í allmikilli umr. á hv. Alþingi á dögunum og ég ætla ekki að bæta þar neinu við að sinni, en menn hljóta að sjá af þeim tölum, sem ég hef lesið, að launafólk hefur tekið þátt í því að leysa þann vanda sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir vegna hins mikla viðskiptakjaraáfalls.