22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Ætlun mín var ekki að umr. tefðust mjög hér í deildinni af þessum sökum. Ég tel að hann hafi sett fram rétta lýsingu á því, sem gerst hafi, á sama hátt og ég rakti hér dæmi um, hvernig þessir skattar kæmu út.

Ég er ánægður með að hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir, að það sé sjálfsagt að taka þessi mál til athugunar. Það er auðvitað rétt hjá ráðh. að þessu verður ekki breytt nema með lagabreytingu. En það var einmitt út frá því sjónarmiði sem ég bar fram þá fsp., hvort ráðh. gæti ekki hugsað sér að þessi álagning yrði felld niður að einhverjum hluta. Það, sem ég átti við fyrst og fremst, var auðvitað sá hlutinn þegar lægstar eru tekjur barnanna, það sem áður var ekki skattlagt vegna þess að námsfrádráttur kom til, eins og kom reyndar líka fram í svari hæstv. ráðh. Ég beini því til ráðh., að það verði sérstaklega íhugað, og lýsi áhuga mínum á því, að það verði tekið til sérstakrar meðferðar.