02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er ljóst að við eigum fram undan mikinn verðbólguvanda. Um það var rætt hér á dögunum. Það þarf ekki að endurtaka það. Ríkisstj. hefur verið að kanna þá möguleika og er að fjalla um hvernig hægt sé að taka á þeim vanda. Niðurstöður eru engar í þeim efnum. En þessi athugun ríkisstj. hefur það markmið að vernda kaupmátt launanna, að vernda lífskjörin í landinu.

Það er mikill misskilningur, sem mér finnst koma fram hjá hv. 1. þm. Reykv., að kaupmáttur launa rýrni á næsta ári vegna kjarasamninganna. Sú rýrnun sem þarna er verið að tala um á kaupmætti launa, er auðvitað frá þeim kjarasamningum sem gerðir voru. Auðvitað hefði rýrnunin verið þeim mun tilfinnanlegri sem kjörin hefðu verið lakari áður en þessi ferill í kaupmættinum hefst.

En það er alveg augljóst mál af hverju þessi rýrnun á sér stað. Það er af frádráttarliðunum, sem við vorum að tala um hérna áðan, og svo líka vegna þess, að kaupmáttur launanna fer svo langt niður fyrir hvern verðbótadag að meðaltal ársins verður ekki eins gott og það þyrfti að vera og í rauninni er gert ráð fyrir að þyrfti að vera. Þetta er í raun og veru meginatriðið og meginskýringin á því, að hverju kaupmáttur launanna fer niður á árinu.

Hins vegar snýst umræðan um það núna, og um það þurfum við að ræða betur síðar, með hvaða hætti er hægt að tryggja kaupmátt launanna betur en þarna er gert. Ríkisstj. hefur lagt á það áherslu að slíkt gerist ekki nema með samkomulagi og samráði við verkalýðssamtökin í landinu. Þá umræðu ætla ég ekki að hefja hér núna.

Ég get ekki svarað hv. þm. Friðrik Sophussyni um hvaða ráðstafanir það eru sem ríkisstj. hefur á döfinni í þessum efnum. Ákvarðanir hafa ekki verið teknar, en þær eru í undirbúningi.

Það var annars ansi athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni, að eitt af því, sem gerði það að verkum að ríkisstj. væri að skerða kaupið í landinu, væri að hún hefði ekki tekið ákvörðun um fleiri erlend stórfyrirtæki. Þetta sýnir ákaflega vel hvað klukkan slær á því heimilinu.