22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Umræður utan dagskrár

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir, sem hafa talað á undan mér, þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir að vekja athygli á þessu máli, því að staðreyndin er sú, að skattlagning á börnin kemur foreldrum í opna skjöldu, ekki síst vegna þess, hversu álagningin kemur seint á árinu. Það er reyndar margt í þessum nýju skattalögum sem kemur mönnum vægast sagt undarlega fyrir sjónir. Ég held að eðlilegast væri að þessi skattálagning yrði hreinlega felld niður í ár, eins og kom fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni áðan, og tíminn væri notaður fram að næstu álagningu til að kanna málið, hvernig það kemur út miðað við fyrri lög. Hæstv. fjmrh. hefur marglýst yfir að skattamál verði skoðuð í ljósi nýju laganna. Ekki væri síður ástæða til að skoða þau nú með tilliti til þess, að staðgreiðslukerfið er ekki enn komið á, eins og gert var ráð fyrir við samningu nýju skattalaganna.

Ég held að það væri engin goðgá að fella álagninguna niður, þegar haft er í huga að heildarskattálagningin var miklu hærri en áættað var og reyndar 1.5 milljörðum hærri, eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. e.

Ég ætla ekki að blanda mér í hvað er öll sagan eða hálf varðandi tölur þegar hæstv. fjmrh. á í hlut. Það virðist ekki eiga að taka mark á öllum tölum sem frá honum koma.