02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

90. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin. Ég hef ýmislegt við þau að athuga að sjálfsögðu.

Hæstv. ráðh. sagði að málið hefði verið sent flugráði, að mér skildist strax. Ég hef þær upplýsingar bestar, að það hafi þá einhvers staðar týnst á leiðinni því að það mun ekki hafa komið til flugráðs fyrr en nokkuð seint, að því er ég best veit. Ég vil ekki saka hæstv. ráðh. um það.

En líklega vegna þessa m.a. hefur sú athugun, sem vinna átti svo fljótt sem auðið væri, farið seinna í gang en ella. Hæstv. ráðh. segir að vinnan sé nú í gangi. Ég rengi hann ekki. En út af þeirri nefnd, sem hæstv. ráðh. nefndi hér, á vegum Fjórðungssambandsins, sem hann hafði óskað eftir að gerði endurskoðun á samgöngubótum að því er varðaði Vestfirði, þá~ var engin ástæða að mínu viti til að geyma þetta mál þeirri nefnd. Hér var um að ræða afmarkað verkefni sem Alþingi var búið að álykta um og átti að framkvæma.

Ég dreg ekkert í efa að því er varðar miðlínusendinn og fjarlægðarmælana. Það var allt komið áður en þessi þáltill. var samþykkt.

Að því er varðar lýsinguna frá sjónarhóli flugmanna má vel vera að þeir telji ýmis vandkvæði öryggisins vegna á því að lýsa Ísafjarðarflugvöll. En meginástæðan fyrir þessari þáltill. er að fá úr því skorið hvort og þá með hvaða hætti hægt sé að tryggja betur samgöngur við þennan landshluta sem er svo til einangraður langtímum saman, byggir að verulegu leyti vetrarmánuðina einvörðungu á flugsamgöngum og þær geta lagst niður, eins og hér hefur margoft verið komið inn á og vakin athygli á, ekki svo dögum skiptir, heldur svo vikum skiptir án þess að nokkrar samgöngur séu við t.d. nyrðri hluta Vestfjarða.

Varðandi skrif hæstv. ráðh. til fjvn. hafa fjvn. ekki mér vitanlega borist nein tilskrif frá hæstv. ráðh. að því er þetta varðar. Það mun þá vera á leiðinni. Það er ekki komið það ég best veit. (Gripið fram í.) Kannske er það einhvers staðar í kerfinu. En það hefur ekki komið til fjvn. að því er ég best veit.

Varðandi Bolungarvík og veðurmælingar þar, sem eru allt of litlar að því er hæstv. ráðh. segir og taki nokkurn tíma að fá úr því skorið, hvað þar sé um að ræða, vil ég aðeins segja að hefði þessi þáltill. verið samþykkt fyrir um þremur árum, þegar hún var fyrst borin fram hér á Alþ., lægju væntanlega fyrir núna niðurstöður þeirra veðurmælinga sem til þyrfti. En eins og þingheimur veit beitti hæstv. ráðh. sér gegn því, að þetta mál næði fram að ganga, fyrir þremur árum.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Ég tek undir það með hæstv. ráðh. að vissulega þarf að sinna fleira en í þessari þáttill. er tekið á að því er varðar flugsamgöngur við Vestfirði. Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni, að bæði er unnið að lagfæringu á flugbrautinni á Bíldudal og vonir standa til þess, að fjármagn fáist til að gera Suðureyrarflugvöll betur úr garði en er nú. Mér er tjáð, og dreg það ekki í efa, að hann sé einn af þeim flugvöllum vestra sem er hvað hættulegastur og því brýn nauðsyn að lagfæra hann. En ég ítreka að ég vænti þess, að hæstv. ráðh. líti svo á þetta mál að niðurstöður að því er varðar innihald þáltill., sem Alþ. hefur tjáð sig um og samþykkt, liggi fyrir á komandi ári þannig að hægt verði að snúa sér að því að gera þær úrbætur í flugsamgöngum við Vestfirði sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja Vestfirðingum eðlilegar samgöngur við aðra landshluta.