02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

90. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Sem flugráðsmaður vil ég gjarnan upplýsa að af samtals 2 milljörðum og 100 millj. kr., sem flugráð hefur gert tillögur um vegna verklegra framkvæmda á sviði flugmála á komandi ári, eru tillögur um 396 millj. til Vestfjarða, og ég held að ég megi segja að allar þær tillögur sem borist hafa flugráði frá þm. og ráðh., hafi verið teknar þar til greina. Því til viðbótar höfum við í flugráði gert tillögur um flugstöðvarbyggingu á Þingeyri og flugbrautarlengingu á Flateyri. Ef þessar tillögur okkar verða samþykktar til viðbótar við það, sem flugráð leggur þegar til, fer framlagið líklega upp í 450–500 millj. kr. Ég held því að í flugráði hafi verið tekið tillit til óska þm.

En það er eitt sem ég vil undirstrika nú. Þær óskir, sem hafa borist frá Vestfjarðaþingmönnum, hafa ekki hlotið neinn forgang. Við höfum tekið til greina óskir þm. og óskir, sem hafa komið til okkar, skulum við segja, í flugráði, að eins miklu leyti og við höfum mögulega getað. Það hefur verið stefna mín í flugráði, og ég leyfi mér að segja okkar þm. sem þar erum, að reyna að taka eins mikið tillit til þeirra óska, sem berast frá þm. til flugráðs, og mögulegt er. Ég hef þá reynslu síðan ég kom hér til starfa, að eftir að fjárlög eru samþykkt af ríkisstj. hafa komið fram tillögur um að bæta við hér og bæta við þar. Ég tel því betra að hafa allar þessar tillögur inni frá upphafi þannig að þm. geti staðið saman við gerð fjárlaganna, en komi þá ekki með kröfur eftir að fjárlög hafa verið samþykkt.