02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

90. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki von á öðru en hv. þm. Karvel Pálmason hefði sitthvað við svör mín að athuga, eins og mér finnst ég hafa heyrt áður hér í þinginu og verður seint svo að hann verði alveg ánægður með svörin. Það er ekkert við það að athuga. En ég vil aðeins upplýsa út af því, sem kom fram hjá honum, að bréfið fór frá rn. 4. júlí. Það er skjalfest. Ég verð að viðurkenna að ég hef heyrt að það hafi eitthvað velkst á milli manna þarna, flugráðs og flugmálastjórnar, en 4. júlí fór það frá rn.

Ég vil jafnframt segja að ég hef tekið þátt í ítarlegum umræðum um öryggismál flugsins á Vestfjörðum, því að við Vestfjarðaþingmenn þekkjum það ekki síst og vitum hvað þar er víða varhugavert flug, og mér hefur þótt ég fá mjög góðar undirtektir undir það bæði hjá flugmálastjóra og hjá flugráði. Ég held því að það sé fullur skilningur á þessu þar. Hitt er svo annað mál, að það er ætíð spurningin hvað er hægt að hrinda miklu í framkvæmd á skömmum tíma. En ég veit að hv. þm., a.m.k. Vestfjarðaþm., hafa aðgang að samanburði sem fjórðungssamband Vestfjarða gerði á fjárveitingum, og þar munu þm. geta séð að veruleg aukning varð til flugmála á Vestfjörðum á þessu ári.

Eins og ég sagði áðan hefur flugráð ætíð tekið þessum málum vel. En ekki voru allar tillögur mínar teknar með því að ég mælti fyrir því alveg sérstaklega á fundi með flugráði að lýsing á Ísafjarðarflugvelli yrði tekin inn af þeim ástæðum sem ég hef rakið, vegna heilsugæslustöðvarinnar. Flugráð sá sér ekki fært að taka það með í sínar tillögur. Það stafaði af því, að það komu aðrir liðir inn, og flugráð mat þá eflaust enn mikilvægari. En ég hef skrifað fjvn. bréf og ég held að það hljóti að verða hjá fjvn., ef ekki í dag, þá á morgun, ég trúi ekki öðru, því að ég hef a.m.k. skrifað undir það og það er farið frá mér, þar sem ég gerði þessa aths. og benti á mikilvægi lýsingar á Ísafjarðarflugvöll af þessum ástæðum.

Nefndin, sem ég hef skipað, er skipuð að ósk Fjórðungssambandsins. Mér fannst ástæða til að biðja hana einnig að skoða þetta mál af því að þetta er svo stór þáttur.

Mér er vel kunnugt um það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um heilsugæslumálin, og skal með ánægju gera mitt til að vekja athygli á því. Hitt er svo annað mál, að ég hef barist við þetta kerfi bæði sem ráðh. og þm. árum saman og mér hefur ekki gengið vel, verð ég að viðurkenna. (Gripið fram í: Eigum við ekki að afnema það?) Ég er til í það, jú. Eigum við ekki að rugla saman reytum okkar í því skyni?