02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

90. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það eru örfá orð út af þeim upplýsingum sem hv. þm. Albert Guðmundsson gaf áðan. Hann gat þess, að það hefði verið tekið tillit til allra óska sem borist hefðu frá þm. og ráðh. Hæstv. ráðh. var að upplýsa núna að ekki hefði verið tekið tillit til óskar hans varðandi ljós á Ísafjarðarflugvöll. Svo sagði hv. þm. Albert Guðmundsson að í tillögum flugráðs væri gert ráð fyrir flugstöð á Þingeyri og flugbraut og ljósum á Flateyri. Engar slíkar tillögur hafa borist fjvn. frá flugráði og höfum við þó fengið lista frá flugráði yfir þær fjárveitingar sem það leggur til að fari til þessara mála. Á þeim lista er hvorki flugstöð á Þingeyri né flugbrautarljós á Flateyri.

Þetta vildi ég láta koma fram. Vel má vera að þetta eigi eftir að koma, en enn sem komið er hefur fjvn. ekki séð slíkar tillögur.