02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

355. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram þrjár spurningar til hæstv. samgrh. Það er í fyrsta lagi: Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að gera Landssíma Íslands kleift að sjá um að til séu strandstöðvar til að framfylgja lögunum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa?

Í lögum frá 13. maí 1977 segir að Landssími Íslands skuli sjá um að strandstöðvar séu til móttöku þessara tilkynninga og áframhaldandi sendingar þeirra til eftirlitsmiðstöðvar. Landssíminn skal einnig sjá um að

skipum á þeim hafsvæðum hér við land, sem búa við mjög slæm móttökuskilyrði, verði bætt aðstaðan með uppsetningu nýrra strandstöðva. Hér er um bein fyrirmæli að ræða.

Nú eru liðin þrjú og hálft ár frá því að þessi lög tóku gildi. Það hefur margt verið vel gert í þessum efnum. Slysavarnafélag Íslands hefur gert hverja samþykktina eftir aðra og skorað á stjórnvöld að ljúka þessum framkvæmdum sem allra, allra fyrst. En þó að vel hafi verið unnið á vissum svæðum eru einkum þrjú svæði þar sem ekki er hægt að segja að Landssíminn geti annast þessa sjálfsögðu skyldu, en það er að tryggja metrabylgjusamband á hafsvæðinu við sunnanverða Vestfirði og á djúpmiðum Breiðafjarðar og að tryggja metrabylgjusamband fyrir Norðvesturlandi frá Almenningum að Horni um Skagafjörð að Húnaflóa.

Tvær seinni spurningarnar fjalla um þetta atriði. Hvenær verður ráðist í þessar framkvæmdir til þess að það sé tryggt að lögum sé fullnægt? Bátar á Húnaflóa og á þessu svæði öllu, sem ég hef hér gert að umræðuefni, geta ekki staðið við skuldbindingar um tilkynningarskyldu vegna þess að til þeirra heyrist ekki. Hér er orðið um það brýnt mál að ræða að ekki er hægt að una því, að beðið sé lengur með úrbætur hvað snertir þessi tvö svæði.

Ég get í leiðinni, þó ég spyrji ekki beint um það, bent á þriðja svæðið sem líkt er ástatt um, þ.e. að tryggja metrabylgjusamband út af Héraðsflóa og við sunnanverða Austfirði á milli Nesradíós og Hornafjarðarradíós. Það eru þessi þrjú svæði sem eru algjörlega á eftir. Rétt er að vekja líka athygli á því, að einmitt á svæði eins og Húnaflóasvæðinu er mikið um smábáta sem ekki geta komið tilkynningum um staðsetningu frá sér og því er mjög mikilvægt öryggismál að koma metrabylgjusamböndum upp á þessum svæðum. Vænti ég þess, að hæstv. ráðh. geti nú svarað, hvenær það verður gert, og þá jafnvel um leið, hvað þessar úrbætur koma til með að kosta mikið fé fyrir hvort svæði um sig.